5 C
Selfoss

Engar forsendur til að fjalla um virkjanakosti í sveitarfélaginu

Vinsælast

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps fór yfir málefni vindorkuverkefnis Hrútamúlavirkjunnar á síðasta sveitarstjórnarfundi.

Í samráðsgátt stjórnvalda er í fyrra umsagnarferli drög að tillögum verkefnisstjórnunar 5. áfanga rammaáætlunar er varðar flokkun 10 vindorkuverkefna. Eitt af þeim vindorkuverkefnum sem er fjallað um er Hrútmúlavirkjun sem er á jörðinni Skáldabúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Vék af fundinum

Gunnar Örn Marteinsson, nefndarmaður, vék af fundinum þegar kom að þessu málefni.

Ég er ósáttur við þær miklu hugmyndir sem uppi eru um uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi og tel að nauðsynlegt sé að marka skýra stefnu um hvar á landinu kemur til greina að reka slíka starfsemi áður en teknar verða frekari ákvarðanir í þeim efnum,“ segir Gunnar í bókun fundarins.

Einn af þeim vindorkuverskostum sem til umfjöllunar eru í verkefnastjórn rammaáætlunar er Hrútmúlavirkjun, þær myllur sem næst munu standa mínu heimili eru í um 4 til 5 km fjarlægð og vindorkuverið er staðsett í nánast sömu hæði yfir sjó og munu spaðar þess ná í um 200 metra hæð. Það er því ljóst að komi til þess að þetta orkuver verði reist mun það þýða verðfall eigna minna eins og dæmin frá nágrannalöndum okkar sýna, auk þess sem það mun hafa neikvæð áhrif á frekari möguleika til uppbyggingar í ferðaþjónustu bæði hjá mér og víðar á svæðinu eins og til dæmis í Árnesi,“ segir Gunnar einnig.

Hann áskilur sér rétt til að koma að málinu ef það kemur til umfjöllunar síðar í sveitarstjórn en mun áður en til slíks kæmi leita álits um hæfi sitt hjá lögfræðingum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Algjör forsenda að klára stefnumörkun í staðarhaldi og eignarhaldi

Að mati sveitarstjórnar eru engar forsendur til þess að verkefnastjórn rammaáætlunar fjalli um virkjanakosti í sveitarfélaginu án þess að formlega hafi verið fjallað um verkefnið í sveitarstjórn. Verkefnið hefur mætt töluverðri andstöðu í nærsamfélaginu, enda hefur það fengið litla kynningu og umfjöllun. Hrútmúlavirkjun myndi hafa veruleg neikvæð sjónræn áhrif, bæði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en einnig í nærliggjandi sveitarfélögum eins og Hrunamannahreppi þar sem engin kynning hefur átt sér stað á virkjanakostinum,“ segir í fundargerð sveitarfélagsins.

Einnig var talað um að sú umgjörð sem fráfarandi ríkisstjórn skapaði í undirbúningi vindorkuvera, þar sem engin stefnumörkun hefur verið tekin hvorki um staðarval né eignarhald, hafi orsakað mikla reiði í nærsamfélögum mögulegra vindorkuvera um land allt. Það er algjör forsenda að ríkisstjórnin klári stefnumörkun í staðarvali og eignarhaldi ásamt því að klára tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga áður en lengra verður haldið,“ segir að lokum.

Sveitarstjórn felur oddvita að skila inn umsögn sveitarstjórnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Nýjar fréttir