Sendingarþjónusta Wolt, sem hóf starfsemi sína í Reykjavík í maí árið 2023, færir nú út kvíarnar austur fyrir fjall og hefur sendingar á Stokkseyri og Eyrarbakka.
Wolt hóf sendingar á Selfossi og í Hveragerði í nóvember árið 2023, en frá og með 8. janúar byrjaði sendingarþjónustan að senda mat frá Selfossi til Stokkseyrar og Eyrarbakka. Með því að fjölga afhendingarstöðum gefur Wolt íbúum bæjarfélaganna og nærliggjandi bæja meðfram veginum tækifæri til að njóta þægindanna sem sendingarþjónustan býður upp á.
Með stækkuninni geta viðskiptavinir á Stokkseyri og Eyrarbakka því pantað frá 16 vinsælum stöðum á Selfossi sem hafa ýmist verið lengi í uppáhaldi hjá heimamönnum eða eru nýir og alþjóðlegir. Tilgangur framtaksins er að auka þægindi íbúa í bæjarfélögunum og styðja við aukinn vöxt veitingastaða og fyrirtækja á Selfossi.
„Við erum himinlifandi yfir því að bæta Stokkseyri og Eyrarbakka við hóp afhendingarstaða og gera íbúum þannig kleift að njóta síns uppáhalds matar frá Selfossi án þess að þurfa að fara úr húsi. Stækkunin er hluti af markmiði okkar sem snýr að því að tengja samfélög og styðja við staðbundin fyrirtæki um allt Ísland,“ segir Jóhann Már Helgason, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Wolt á Íslandi.
Steiktur kjúklingur mest pantaði maturinn
Á síðasta ári var steiktur kjúklingur vinsælasti rétturinn á Selfossi, en heilt yfir Ísland voru hamborgarar vinsælastir. Þrír vinsælustu veitingastaðirnir (ekki í sérstakri röð) voru Menam Thai, KFC og Röstí. Allir ættu þó að geta fundið eitthvað við sitt hæfi þar sem veitingastaðir á Selfossi bjóða upp á hamborgara, fisk, núðlur, pasta og grillmat, svo fátt eitt sé nefnt.
Til viðbótar við að panta frá veitingastöðum geta íbúar Stokkseyrar og Eyrarbakka nú pantað snarl og matvöru frá Krambúðinni ásamt bakkelsi frá GK bakaríi.
Hvernig fyrirkomulagið virkar:
Viðskiptavinir á Stokkseyri, Eyrarbakka og meðfram Eyrarbakkavegi geta nú notað vefsíðu Wolt, wolt.com, eða smáforritið til að skoða og panta frá samstarfsaðilum á Selfossi.
Pantanir eru útbúnar á staðnum og sendar beint til viðskiptavina af fagliði Wolt-sendla.
Sendingartímar eru sérstaklega reiknaðir til að tryggja að matur skili sér fljótt og haldi gæðum.
Viðskiptavinir geta fylgst með sendingum í rauntíma í smáforritinu.