Miðvikudagskvöldið 8. janúar fór hin árlega uppskeruhátíð fræðslu- og frístundarnefndar Árborgar fram á Hótel Selfossi.
Þó nokkur fjöldi fólks var mættur til þess að fagna því flotta íþróttafólki sem Árborg á.
Elísabet Björgvinsdóttir, ung og efnileg söngkona frá Selfossi, opnaði hátíðina með glæsilegu tónlistaratriði en í kjölfarið hélt Brynhildur Jónsdóttir formaður fræðslu- og frístundarnefndar setningarræðu. Fjöldi íþróttafólks fékk því næst viðurkenningu fyrir góðan árangur á árinu.
Til íþróttafólks Árborgar voru að þessu sinni 24 aðilar tilnefndir, 11 konur og 13 karlar. Kosningin er með því sniði að sérstök valnefnd kýs og hefur 80% vægi á móti 20% vægi netkosningar.
Kosningin hjá konunum fór þannig að Bergrós Björnsdóttir lyftingakona sigraði með 100 stig, í 2. sæti varð Perla Ruth Albertsdóttir handknattleikskona með 51 stig og í 3. sæti varð Bryndís Embla Einarsdóttir frjálsíþróttakona með 42 stig. Hjá körlunum var það Hákon Þór Svavarsson skotíþróttamaður sem varð hlutskarpastur með 90 stig, í 2. sæti varð Alexander Adam Kuc motocrossmaður með 42 stig og í 3. sæti varð Aron Emil Gunnarsson kylfingur með 39 stig.
Einnig voru veittir styrkir úr afreks- og styrktarsjóðum Umf. Selfoss, Golfklúbbs Selfoss og Árborgar. Sjóðnum er ætlað að styðja enn betur við einstaklinga og hópa sem náð hafa umtalsverðum árangri í íþrótt sinni.
Þá hlaut Körfuknattleiksfélag Selfoss Hvatningarverðlaunin fyrir að endurvekja meistaraflokk kvenna hjá félaginu. Liðið er byggt á grunni kvenna af svæðinu auk þess að ungir og efnilegir iðkendur úr yngri flokkunum hafa fengið tækifæri til æfinga og keppni með meistaraflokknum. Markmiðið er að efla möguleika kvenna til þess að stunda íþróttina áfram þegar grunnskólagöngu lýkur auk þess að búa til fyrirmyndir fyrir unga iðkendur félagsins. Þá er von til þess að iðkendafjöldi stúlkna muni aukast hjá körfuboltanum með tilkomu meistaraflokks.