-11.8 C
Selfoss

Annáll ritstjóra

Vinsælast

Kæru lesendur. Ég vil óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það liðna. Ég þakka þeim fjölmörgu aðilum og fyrirtækjum sem við höfum átt í samskiptum við á liðnu ári fyrir gott samstarf. Einnig vil ég þakka öllum þeim sem hafa sent okkur ábendingar, fréttatilkynningar, pistla og fleira. Án ykkar væri erfitt að halda úti blaðinu og vonast ég eftir fleiri ábendingum á nýju ári því við viljum alls ekki missa af þeim merku atburðum sem eiga sér stað á Suðurlandi.

Árið 2024 var sannarlega viðburðaríkt. Ég byrjaði sem blaðamaður hjá Dagskránni í ágúst og tók við ritstjórastarfinu í nóvember. Áður gegndi Helga Guðrún Lárusdóttir starfinu og þakka ég henni fyrir hennar framlag til Dagskrárinnar.

Starfið hefur verið mjög lærdómsríkt og hefur mér verið tekið rosalega vel af bæði samstarfsfólki og lesendum. Með nýjum ritstjóra komu inn nokkrar nýjungar. Dagskráin byrjaði á fullu á TikTok til þess að ná betur til yngri kynslóðarinnar og hefur það gengið vel. Einnig gerðum við nýja þætti fyrir DFS.is sem bera nafnið Á rúntinumÉg fór þar á rúntinn og spjallaði við frambjóðendur Suðurkjördæmis fyrir Alþingiskosningarnar sem fóru fram í nóvember. Ásamt því hefur verið nóg að gera í fréttaöflun fyrir Dagskrána, en það er ekki skortur á viðburðum og afrekum á Suðurlandi.

Nú þegar árið 2024 er liðið er við hæfi að líta yfir farinn veg og rifja upp tíu mest lesnu greinar DFS.is.

1. Atvinnulaus leikskólakennari, það er víst til

Tinna Rúnarsdóttir skrifaði pistil um vandann við að fá leikskólapláss á Selfossi. Hún er fjögurra barna móðir, búsett í Árborg, leikskólakennari að mennt ásamt því að vera með BA-gráðu í félagsvísindum. Í greininni segist hún eiga börn á leikskólaaldri sem hafa seint komist inn á leikskóla og aldrei komist inn til dagforeldra þrátt fyrir að hafa sótt um mjög snemma á meðgöngu. Hún talar um vandann sem því fylgir að fá ekki daggæslu fyrir börnin sín og að í kjölfarið komist hún ekki út á vinnumarkaðinn.

2. Var rekin úr skóla fyrir að vera of ljót

Rithöfundurinn og Hvergerðingurinn Elísabet Jökulsdóttir var hér í viðtali um nýjustu bók sína Límonaði frá Díafani sem hefur fengið góðar viðtökur eftir að hún kom út. Elísabet fer yfir söguna og innblástur hennar ásamt því að fara yfir æskuna og uppvaxtarárin. Þar segir hún frá því þegar hún var unglingur með lítið sjálfstraust sem hafði meðal annars áhrif á skólagöngu hennar. Hún mætti illa af því henni fannst hún vera of ljót til þess að mæta. Í kjölfarið var hún rekin úr skóla.

3. „Illa ígrunduð ákvörðun stjórnenda Hveragerðisbæjar“

Guðjón Jensson, þýskumælandi leiðsögumaður síðan 1992, skrifaði pistil um upplýsingamiðstöð Hveragerðisbæjar þegar hann var staddur á Heilsuhælinu í Hveragerði. Hann telur það illa grundaða ákvörðun bæjarfélagsins að hafa fært upplýsingamiðstöðina úr Sunnumörk, þar sem hún var áður, í gamalt hús að Breiðumörk 21. Hann telur gömlu staðsetninguna hafa verið fullkomna fyrir ferðamenn þar sem í Sunnumörk sé jarðskjálftasýning sem sé gott aðdráttarafl. Þar hafa ýmis ummerki verið sýnd, myndefni og sjá hefur mátt upptökur úr öryggiseftirlitsmyndavélum. Í kjölfarið væri hentugt fyrir ferðamenn að nýta sér upplýsingamiðstöðina.

4. „Í skoðuninni spurði ég í hæðnistón: Er ég nokkuð með krabbamein?“

Birna Almarsdóttir ræðir í viðtali um það þegar hún greindist með 4. stigs Hodgkins-eitilfrumukrabbamein árið 2020, þá aðeins 27 ára. Hún talar um einkennin sem voru upphaflega ekki þess eðlis að hún hefði stórar áhyggjur. Hún hafði tvisvar sinnum leitað til læknis vegna óljósra einkenna, til að mynda nætursvita, hita af og til, mikillar mæði, óþæginda yfir brjóstsvæði og þráláts hósta. Hún talar um óttann sem hafi tekið yfir hana þegar henni var tjáð að hún væri með krabbamein. Hún og dóttir hennar voru einar heima þegar símtalið barst og segir Birna dóttur sína, sem þá var tveggja ára, hafa reynt að róa hana niður. Hún segir það ákveðinn létti að hafa verið greind með Hodgkins-eitilfrumukrabbamein þar sem batahorfur séu nokkuð góðar. Krabbameinsmeðferðin gekk heilt yfir vel og er Birna þakklát fyrir baklandið sitt og að hafa komist í gegnum þetta.

5. Gömul íslensk mynt fær nýtt líf sem skartgripir

Árni Veigar Thorarensen og afi hans, Gunnar Th. Gunnarsson, halda úti skartgripafyrirtækinu Afi & ég. Þeir vinna alla skartgripi úr gamalli íslenskri mynt. Gunnar hafði safnað mynt síðan 1966 og datt honum í hug að hann gæti gert eitthvað sniðugt úr henni seinna meir. Rúmum 50 árum seinna finnur hann poka með myntinni og fer til Árna og spyr hvort hann vilji fara með honum á silfursmíðanámskeið. Þeir gerðu það og hafa búið til skartgripi síðan. Árni sagði að það væri ekki skortur á gamalli mynt á Íslandi. Afi & ég smíða aðallega ermahnappa, hringa, bindisnælur og eyrnalokka og eru allar vörurnar gerðar úr íslensku myntinni með það að markmiði að gefa henni nýtt líf. Ermahnapparnir eru vinsælastir og eru þeir, og hinir skartgripirnir, mjög vinsælir í gjafir. Fólk kaupir gjarnan skartgripi með þýðingamiklu ártali.

6. Eldur logar í einbýlishúsi við miðbæ Selfoss

Í mars 2024 kveiktu ungmenni í gamla Hafnartúnshúsinu á Selfossi sem stóð í miðbæ Selfoss, við Sigtúnsgarð. Til stóð að flytja húsið og nota í áframhaldandi uppbyggingu í miðbænum.

7. Skírðu barnið sitt í Reykjaréttum

Bjarni Rúnarsson og Harpa Rut Sigurgeirsdóttir eru kúabændur á Reykjum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þau eignuðust sína fyrstu dóttur í lok júní 2024 og ákváðu að skíra hana í Reykjaréttum. Þau ákváðu að skíra þar af því það væri svo mikið að gera hjá öllum á sumrin og að dregist hafi að skíra dömuna. Það er alltaf mikill hátíðardagur í Reykjaréttum hjá fjölskyldu Bjarna og Hörpu þar sem fullt af fólki kemur saman. Því fannst þeim tilvalið að slá þessu saman. Skírnin gekk mjög vel og fólk sem kom til þess að taka þátt í réttunum tók vel í hana.

8. Ný fataverslun opnar í Hveragerði

Icemart Souvenirs, ný fataverslun opnaði í Hveragerði í júlí. Verslunin, sem staðsett er í Sunnumörk 2, er afrakstur samstarfs milli Icewear og Ólafar Ingibergsdóttur, einnig þekkt sem Lóa. Lóa og Icewear sáu tækifæri í því að opna verslunina þegar Upplýsingarmiðstöðin flutti úr Sunnumörk. Verslunin býður upp á fjölbreytt úrval fatnaðar og vörumerkja frá Icewear á sanngjörnu verði. Lóa elskar að þjónusta fólk og segist vera heppin að hafa fengið að vinna við það sem hún elskar, en hún á líka Almar bakarí og verslunina Römlu með manninum sínum.

Ólöf Ingibergsdóttir.

9. Matarkarfan lækkar hressilega í Kjörbúðinni

Í ágúst lækkaði verð á 640 vörum í verslunum Kjörbúðanna og nam lækkunin í mörgum tilfellum tugum prósenta frá fyrra verði. Ákveðið var að fjölga þeim vörum sem merktar eru sérstaklega með grænum punkti, en það eru vörur sem seldar eru á verði sambærilegu við það sem býðst í lágvöruverðsverslunum. Kristín Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Krambúða og Kjörbúða hjá Samkaupum, talaði um að markmiðið með rekstri Kjörbúðarinnar sé alltaf að bjóða viðskiptavinum upp á vöruúrval, þjónustu og verð sem mætir þeirra þörfum og kröfum. Þau reyna því eftir fremsta megni að bjóða upp á fjölbreytt vöruúrval á breiðu verðbili og vera með samkeppnishæf verð.

10. Grunnskólinn í Hveragerði safnaði 2,2 milljónum fyrir Minningarsjóð Bryndísar Klöru

Grunnskólinn í Hveragerði hélt góðgerðarviku í lok nóvember þar sem nemendur eyddu þremur dögum í að búa til ýmsar vörur sem voru svo seldar á markaði sem er opinn öllum. Ágóðinn af sölunni rann í Minningarsjóð Bryndísar Klöru. Alls söfnuðust 2,2 milljónir. Bryndís Klara lést í kjölfar hnífaárásar á menningarnótt í Reykjavík. Markmið sjóðsins er að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni. Haldin var athöfn 18. desember sl. í grunnskólanum þar sem foreldrar Bryndísar Klöru, Birgir Karl Óskarsson og Iðunn Eiríksdóttir, tóku við styrknum og þökkuðu vel fyrir sig.

Nýjar fréttir