Þau eru mörg flóðin í Hvítá og Ölfusá í gegnum tíðina. Árið 1984 varð ofsaflóð við Brúnastaði. Faðir minn Ágúst Þorvaldsson skráði niður sögu allra flóða á sinni tíð. Hér skal birt lýsing hans á ofsaflóðinu 1984 eins og hann skráði það. Tveir bræður mínir sluppu með naumindum frá bráðum bana.
Ágúst lýsir haustveðráttunni og aðdraganda að árflóðinu svo segir hann: Sunnudaginn 12. febrúar var þurrt veður og lignt og heldur kólnandi. Mikið vatn og krap eftir hálkuna var í öllum lægðum og lautum. Ekki vottaði fyrir neinni hreyfingu á Hvítá að öðru leyti en því að íshellan stóð mjög hátt hér á móts við bæinn og taldi ég það bera vott um að hið mikla leysingarvatn hefði lyft henni og myndi hafa næga framrás. Íshellan náði frá Kríutanga að Langatanga sem er hátt á annan kílómetra að lengd og meðalbreidd árfarvegarins er ca einn kílómetri. Svo þetta svæði er um 200 hektarar að stærð.
Gísli sonur minn sem var hér staddur þennan dag gekk norður að ánni kl. 17.30 til að huga að ástandinu. Gekk hann spölkorn austur með árbakkanum og sá ekki annað athugavert en að ísinn stóð mjög hátt. Þar sem hann stóð þarna og virti umhverfið fyrir sér þá veit hann ekki fyrr til en allur þessi mikli ísgeymur lyftir sér í einu vetvangi eins og hendi væri veifað um nokkra metra hæð og ísbrúnin steipist yfir bakkann á öllu svæðinu frá flóðgáttinni og vestur undir Langatanga. Mátti þarna engu muna að hann yrði undir ís- og vatnsbylgjunni þar sem hún steiptist eins og brimskafl yfir túnið. Tók Gísli þegar til fótanna og mátti litlu muna, að hann drægi undan. Stóð ég og fleiri heimilismenn hér úti og sáum hvað gerðist. Mun ég ekki gleyma þessari sjón, jakar og íshrannir byltust fram og ruddu öllu um sem fyrir varð. Sver og nýlegur símastaur varð á vegi flóðsins og hrökk hann í sundur eins og eldspíta væri. Síðan lýsti Ágúst skemmdum á girðingum og túnum og hvernig flóðið flæddi um sveitina.
Svo tekur hann að segja frá kröppum dansi sem Bragi sonur hans komst í. Bragi hafði brugðið sér suður í Gaulverjabæjarhrepp og er á heimleið í myrkri síðdegis. Hann er grunlaus um tíðindin heima. Þegar hann kemur upp fyrir brúna á Stóaskurði vissi hann ekki fyrr en pallbíllinn var kominn út í djúpt og straumhart vatn sem rann yfir veginn og fylgdi mikill jakaburður. Það skipti engum togum að vatnið og jakarnir hrintu bílnum út í vegkantinn og vó bíllinn þar salt. Komst Bragi við illan leik út úr bílnum og upp á þak og hafðist þar síðan við. Ljósin á bílnum loguðu og því sást til bílsins að heiman. Var nú hafist handa við að undirbúa björgunarleiðangur. Þeir Gísli, Ketill og Tryggvi lögðu í þennan hættulega leiðangur á tveimur traktorum sem búið var að þyngja til að standast straumþungann. Oft mátti litlu muna að jakar hrintu traktorunum á hliðina eða út af veginum. Allt hafði þetta góðan endi og var Braga bjargað eftir tveggja klukkustunda bið á þaki pallbílsins.
Verstu flóðasvæðin í Hvítá eru við Oddgeirshóla/Austurkot, Brúnastaði og í Ólafsvallahverfinu á Skeiðunum og í Auðsholtshverfinu í Hrunamannahreppi.
Við sjáum nú hversu samfélagið okkar hefur breyst með öllu björgunarstarfinu, mögnuðum sjálfboðaliðum og gsm-símum. Flóðin eru vöktuð af lögreglu, vegagerð, Veðurstofu og björgunarsveitir kallaðar út. Vegum er lokað á slaginu og þyrlan hefði trúlega sótt Braga. Aðeins fjörutíu ár eru liðin frá þessu mikla flóði. Mörg flóðin hafa verið enn svæsnari en þetta, nægir þar að nefna mikla flóðið 1889 sem Jón Gíslason frá Stóru-Reykjum lýsir svo vel í bókinni Úr farvegi aldanna.
Guðni Ágústsson