Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson var kjörinn þjálfari ársins 2024 á 69. hófi Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem haldið er í Hörpu 4. janúar sl. Hann var einnig kjörinn árin 2021 og 2022. Hann hefur fjórum sinnum verið í öðru sæti í kjörinu.
Þórir gerði kvennalið Noregs í handbolta að Ólympíumeisturum í ágúst og Evrópumeisturum í desember. Hann lét af störfum eftir EM eftir rúm 15 sigursæl ár með liðinu.
Þórir skilur við norska liðið sem sigursælasti landsliðsþjálfari heims. Á 20 stórmótum vann liðið til 17 verðlauna undir hans stjórn, þar af 11 gullverðlauna, þrennra silfurverðlauna og þrennra bronsverðlauna. Hann var líka valinn þjálfari ársins í Noregi 2024.