Selfyssingurinn og handboltaþjálfarinn Þórir Hergeirsson var einn þeirra fjórtán einstaklinga sem sæmdir voru heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum á Nýársdag.
Þórir hlýtur riddarakross fyrir afreksferil í þjálfun og framlag til handbolta kvenna. Hann var ekki viðstaddur athöfnina þar sem hann er staddur erlendis. Hann tekur við sinni orðu við tækifæri, segir í tilkynningu frá embætti forseta.
Þórir hætti þjálfun norska kvennalandsliðsins eftir að hafa stýrt því til sigurs í sjötta sinn á Evrópumeistaramótinu í desember síðastliðnum. Undir hans stjórn hefur liðið unnið ellefu gullverðlaun á stórmótum.