-10.7 C
Selfoss

Hildur Jónsdóttir kosin forseti Landssambands Soroptimista

Vinsælast

Hildur Jónsdóttir, stofnandi Sigurhæða á Selfossi, hefur verið kosin til að gegna forsetaembætti Landssambands Soroptimista. Sambandið er 50 ára um þessar mundir og nær yfir 20 klúbba hringinn í kringum landið.

Hildur hefur haft atvinnu af jafnréttismálum frá því á níunda áratug síðustu aldar og segist ekki vera hætt. „Ég státa m.a. af því að hafa verið í Rauðsokkahreyfingunni, jafnréttisráðgjafi borgarinnar 1996-2006, verkefnisstjóri fyrir jafnréttisverkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, ESB og aragrúa af innlendum verkefnum. Ég hef líka verið formaður Jafnréttisráðs, fyrsti formaður sérfræði- og samhæfingarteymis um mansal, aðalhöfundur Jafnlaunastaðals m.m. Síðast var ég í forsætisráðuneytinu. Þar var ég m. a. fulltrúi þess í rammaáætlun (3. áfanga),“ segir Hildur í samtali við Dagskrána.

Sigurhæðir með gríðarlega sérstöðu

Hildur gekk í Soroptimistaklúbb Suðurlands árið 2015 og stofnaði Sigurhæðir, þjónustumiðstöð fyrir þolendur kynbundis ofbeldis á Suðurlandi, árið 2020.

„Ég stýri Sigurhæðum en allur klúbburinn og samstarfsaðilarnir eru virkjaðir og hjá okkur starfa fjórir frábærir meðferðaraðilar. Sigurhæðir hafa gríðarlega sérstöðu sé horft til annars sambærilegra úrræða að svo mörgu leyti. Þjónustumagnið og tegundir þjónustu eiga sér enga hliðstæðu hér á landi og þótt víðar væri leitað og árangurinn er eftir því, hreint út sagt dásamlegur,“ segir Hildur.

Öll Soroptimistahreyfingin á Suðurlandi hefur fylkt sér um Sigurhæðir, einnig með fjárstuðningi, enda hvíla Sigurhæðir tryggilega á stefnugrundvelli hennar. Þá hefur Evrópusamband Soroptimista veitt styrki. Sigurhæðir eru hugsjón Soroptimista í framkvæmd.

Sigurhæðir hafa vakið athygli forystu Alþjóðasambands Soroptimista. Erlendir Soroptimistar leggja gjarnan leið sína þangað. Nokkrar af æðstu leiðtogum þess komu í heimsókn í okt. sl. og eru hér fyrir framan Sigurhæðir.
Í neðstu röð til vinstri við miðja mynd er forseti Alheimssambands Soroptimista, Siew Yong Gnanalingam frá Malaysíu.
Ljósmynd: Aðsend.

Sigurhæðir byggja á sama grundvelli og afstöðu til baráttunnar gegn kynbundnu ofbeldi og til þolenda eins og önnur sambærileg úrræði hér á landi.

„Það varð okkur að vissu leyti til happs að vera ekki fyrr á ferðinni með að úthugsa allt nákvæmlega. Svo ótal margt var að gerast misserin um og eftir 2020 á meðan við unnum að undirbúningi. Reynsla var komin á þau úrræði sem fyrir voru og starfsfólk þeirra var örlátt að miðla henni til okkar. Ekki bara reynslunni af því að starfa með þolendum, að bæði magn og fjölbreytileiki þjónustunnar þyrfti að vera ríkara, heldur líka hvernig úrræðunum var stjórnað. Fyrstu niðurstöður stóru rannsóknarinnar, Áfallasaga kvenna, komu út á þessu tímabili. Hún staðfesti enn frekar alvarleika, tíðni og margbreytileika brota sem falla undir kynbundið ofbeldi,“ segir Hildur.

Hildur segir að það lærdómsríkasta af öllu hafi verið að rannsóknin sýndi fram á að þolendur glíma einatt við áfallastreitueinkenni sem eru líkamleg, andleg og félagsleg. Afleiðingarnar eru m.a. slæm líkamleg heilsa og verkir, þunglyndi, kvíði, sjálfsskaðandi hegðun, vímuefnanotkun, átraskanir og krónískir sjúkdómar.

„Bein tengsl eru á milli þess að vera þolandi ofbeldis og skertrar stöðu á vinnumarkaði svo sem vegna örorku. Það er mjög mikilvægt að átta sig á þessu. Kynbundið ofbeldi hefur fjárhagslegar afleiðingar fyrir þolendurna vegna þess að þátttakan á vinnumarkaði er iðulega skert eða nákvæmlega engin vegna örorku. Með öðrum orðum, fátækt getur verið ein af afleiðingum kynbundins ofbeldis og það hefur áhrif á næstu kynslóð. Þolendur ná ekki að nýta hæfileika sína í eigin þágu og barna sinna eða í þágu samfélagsins. Við í Sigurhæðum höfum reynslu af því að skjólstæðingar komist úr því að vera á örorkubótum og fari aftur á vinnumarkað. Svona viðsnúningur er í hverju einasta tilviki margra hundruða milljóna króna virði fyrir samfélagið.“

Hildur tekur fram að hægt hafi verið að draga ályktanir um hversu gríðarlega kostnaðarsamt ofbeldið sé fyrir samfélagið og kalla mætti það bæði lýðheilsuvanda og útbreiddan farald.

„Næstum hvar sem borið var niður innan stjórnkerfisins var unnið að því að ná heillegri mynd af vandanum, hversu brotakennd, ósamstæð og ófullnægjandi þjónustan við þennan hóp væri og hvaða leiðir þyrfti að fara til að vinna bug á honum. Ein útkoman var að sums staðar þurfti að breyta löggjöf eða verklagsreglum, til dæmis hjá lögreglu og heilsugæslu. Líka að koma þyrfti á meira samstarfi og samhæfingu þvert á stofnanir. Þegar við settum okkur í samband við fulltrúa í stjórnkerfinu fundum við fljótt að þar var að fæðast einlægur pólitískur og faglegur áhugi á að gera betur.“

Hildur segir þær í Soroptimistaklúbbnum hafi verið vel nestaðar strax í byrjun.

„Við áttuðum okkur á að við gátum ekki takmarkað fjöldann af viðtalstímum fyrir þolendur. Nægilegur tími til að vinna með sín mál undir sterkri faglegri og kærleiksríkri leiðsögn er eitt það nauðsynlegasta og dýrmætasta sem við getum veitt þolanda. Við sáum að við þurftum starfsfólk af hæsta kaliberi hvað sérfræðilega menntun og reynslu snerti þannig að breidd í tegundum þjónustu og meðferðartilboða yrði tryggð frá upphafi. Dæmi um þetta er sérhæfða EMDR áfallameðferðin. Venjuleg sálfræðimeðferð virkar almennt ekki á dýpstu örin og skemmdirnar eftir alvarlegustu áföllin eða langa áfallasögu. Ekkert af okkar systurúrræðum gat boðið upp á svo sérhæfða þjónustu. Hugtakið markaðsbrestur kom líka til. Við gátum ekki eftir örfá viðtöl sagt skjólstæðingi að fara bara út að leita sér að EMDR áfallameðferð. Á Suðurlandi var fáu til að dreifa á því sviði. Svo er hún dýr. Við sem Soroptimistar viljum veita heildræna þjónustu í heimabyggð, ókeypis.“

Hildur nefnir þátt sem líka markar þeirra sérstöðu. Tæpu ári áður en dyr Sigurhæða voru opnaðar gerðu þær óskalista yfir stofnanir í sunnlensku samfélagi sem þær vildu fá um borð.

„Við vildum að Sigurhæðir yrðu ekki bara okkar verkefni, heldur sannkallað lýðheilsuverkefni sem allir Sunnlendingar ættu aðild að. Verkefni sem þeir gætu litið á sem sitt eigið. Við töluðum við öll sunnlensku sveitarfélögin 15 að tölu, lögregluembættin, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sýslumannsembættin o.fl. Viðbrögðin komu á óvart. Alls staðar fengum við frábærar viðtökur, okkur var sagt að eftir frumkvæði sem þessu hefði lengi verið beðið.“

Öll sveitarfélögin vildu ekki aðeins gerast formlegir samstarfsaðilar heldur einnig leggja fram fé. Þá gengu þau skrefinu lengra og samþykktu á vettvangi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga að Sigurhæðir skyldu vera svokallað áhersluverkefni í Sóknaráætlun Suðurlands þar sem unnið er að markmiðum um heilsueflandi samfélög og aukin lífsgæði Sunnlendinga.

„Við erum gríðarlega stoltar af sveitarstjórnarstiginu á Suðurlandi eins og öllum samstarfsaðilum okkar. Þetta þýðir að félagsþjónusturnar, heilbrigðiskerfið, lögreglan, stjórnsýslan hjá sýslumanni og Sigurhæðir eru öll að samhæfa þjónustuna þar sem allir hafa hlutverk. Við stofnun Sigurhæða var hvergi annað eins formlegt samstarfskerfi í heimabyggð um hagsmuni þolenda,“ segir Hildur.

Hefð er fyrir því að forseti velji sér kjörorð fyrir kjörtímabilið sem á að endurspegla áherslur hennar og hreyfingarinnar. Hildar er SYSTRAÞEL. STYRKUR. SAMSTAÐA. „Allan minn starfsferil á sviði jafnréttismála hafa þessi orð verið mitt leiðarljós og í mínum huga kjarna þau allt sem Soroptimistar standa fyrir hvarvetna í heiminum,“ segir Hildur.

Var kosin í embættið á Landssambandsfundi Soroptimista

Kosið er til embætta á Landssambandsfundi Soroptimista sem haldinn er að vori. Oftast er kjörtímabilið tvö ár þannig að um helmingur embættismanna lýkur störfum á hverjum tíma og aðrir kosnir í þeirra stað. Stólaskipti fara fram um áramót. Sama gildir um forseta. Á landsfundinum fara tveir fulltrúar úr hverjum klúbbi með atkvæðisréttinn, óháð stærð þeirra. Hildur segir þetta vera mjög sniðugt, skilvirkt, lýðræðislegt og tryggi samfellu.

Forseti Landssambands Soroptimista þarf að hafa augun á öllum 20 Soroptimistaklúbbunum í kringum landið og á sjöunda hundrað systrum innan þeirra. „Ég vil styðja þau dásamlegu verkefni sem þær vinna fyrir heimabyggðir sínar og einnig á alþjóðlegum vettvangi,“ segir Hildur. Forsetinn er talsmaður Soroptimista, ber ábyrgð á fundum, framkvæmd laga sambandsins og að allt fyrirkomulag virki. Megineinkenni þess er mikil valddreifing. „Mikilvægast er það að forsetinn er fremstur meðal jafningja með aðgang að miklum fjársjóði þekkingu og reynslu,“ segir Hildur einnig.

Hreyfing Soroptimista á Íslandi er hluti af Alþjóðasamtökum Soroptimista sem eiga sögu rúmlega öld aftur í tímann og ná yfir meira en 130 lönd. Þau greinast í fimm heimshlutasamtök og tilheyrir Ísland Evrópusambandi Soroptimista. „Það er svo frábært að forseti Evrópusambandsins núna sé íslensk kona, Hafdís Karlsdóttir, sem þekkir alla innviði betur en lófann á sér,“ tekur Hildur stolt fram.

Innan klúbba og á alþjóðlegum vettvangi er unnið að urmul verkefna sem öll snúast um kjarnann í boðskap Soroptimista – að styðja og efla stúlkur og konur. Slíkar áherslur lyfta lífsgæðum allrar fjölskyldunnar og oft þeirra nærsamfélagi líka. Sem dæmi má nefna heilsueflandi verkefni, vatnsverkefni, byggingu og rekstur skóla, starfsnám, leiðtogaþjálfun og baráttuna gegn fátækt sem bitnar hlutfallslega verr á konum og stúlkum. „Íslenskur klúbbur gæti þess vegna, auk starfsins á heimavelli, verið að styðja við starfsnám kvenna í tyrknesku fangelsi til að þær hafi að einhverju að hverfa eftir afplánun og séu færar um að sjá fyrir sér og börnum sínum. Svo er baráttan gegn kynbundnu ofbeldi í algerum forgangi. Soroptimistar um allan heim taka afgerandi þátt í henni, í mörgum tilfellum í beinu samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar,“ segir Hildur.

„Við deilum áhyggjum af mörgum erlendum systrum okkar vegna þess ófriðarbáls og kúgunar sem víða ríkir núna. Íslenska og alþjóðlega Soroptimistahreyfingin hefur styrkt Soroptimistaklúbba í Úkraínu og í Rússlandi er starfsemi Soroptimista í hættu vegna ógnarstjórnar Pútíns,“ bætir Hildur við.

Hildur segir alþjóðlega starfið innibera rík tengsl við Sameinuðu þjóðirnar. „Við eigum áheyrnaraðild að níu nefndum/stofnunum þeirra og má rekja þau til gerðar Mannréttindasáttmálans 1948. Þessu fylgir mikil vinna. Aðeins þrjú önnur kvennasamtök á heimsvísu njóta sambærilegrar stöðu og við lítum á samstarf okkar við S.Þ. sem djásnið í krúnu okkar Soroptimista.“

Hjartað fullt af þakklæti og auðmýkt

Hildur segir það mikinn heiður að fá að gegna embætti forseta Landssambands Soroptimista.

„Ég finn að hjarta mitt er fullt af þakklæti og auðmýkt, en líka miklum sóknarhug fyrir hönd Soroptimista. Þegar ég var kosin til starfsins lýsti ég embættinu sem fjórþættu: Það er heiðursstaða og trúnaðarstarf inn á við gagnvart hreyfingunni, þjónustustarf við samfélagið og svo er það virðingarstaða. Það síðasta nefni ég af því að Soroptimistar eiga sér langa sögu um að hrinda af stað nýskapandi verkefnum, veita fjárstyrki og vera styrk stoð og liðsfélagi í umbótaverkefnum hérlendis og erlendis. Ég verð endalaust vör við að Soroptimistahreyfingunni er sýnd mikil virðing og ég vil reynast hennar verðug. Svo finnst mér að öll mín langa og víðtæka reynsla af jafnréttismálum í breiðasta skilningi komi saman í einum punkti í þessu embætti og það er góð tilfinning að hún nýtist enn.“

Hildur tók formlega við sem forseti sambandsins 1. janúar sl. „Mér – og löngu og víðtæku starfi mínu að jafnréttismálum og bættri stöðu kvenna – er sýndur mikill heiður og ég hlakka til að takast á við þetta verkefni sem ég mun sinna samhliða Sigurhæðum.“

Nýjar fréttir