Ávaxtakarfan hefur göngu sína aftur hjá Leikfélagi Hveragerðis laugardaginn 11. janúar. Viðtökur verksins hafa verið mjög góðar. Það var frumsýnt haustið 2024 og voru sýndar 22 sýningar fyrir jól og uppselt á þær allar. Það er nú þegar uppselt á fyrstu sýningar ársins. Leikfélagið stefnir á að sýna allavega út janúar og febrúar og halda áfram meðan aðsókn er góð.
Valdimar Ingi Guðmundsson formaður leikfélagsins segir í samtali við Dagskrána að hann hafi búist við því að verkið yrði svona vinsælt, enda vel þekkt verk og flottur hópur sem kemur að sýningunni. „Leikhópurinn er einstaklega samrýmdur og öflugur, hefur tekist á við æfingar og sýningarferlið með gleði og ánægju,“ segir Valdimar. Hann segir að hópurinn sé ekki orðinn þreyttur en að stefnt sé að því að gefa frí einhverjar helgar til þess að hópurinn missi ekki áhugann. Að lokum segir Valdimar að félagið stefni á það að sýna að minnsta kosti 30-35 sýningar, en 35 sýningar er sýningarmet félagsins.
Miðasala Ávaxtakörfunnar fer fram á Tix.is.