Þrítugasta og jafnframt síðasta Sölvakvöldið fer fram á Hótel Örk í Hveragerði í kvöld. Hljómlistarfélag Hveragerðis hefur alltaf standið fyrir kvöldinu en það skipa Sigurður Egilsson, Sölvi Ragnarsson, Kristinn Harðarson, Heimir Eyvindarson, Sævar Þór Helgason og Páll Sveinsson.
Fram koma m.a. Sölvarnir, Seventees, Riff Reddhedd, HúrríGúrrí, Koppafeiti, Ágústa Eva, Unnur Birna, Pétur Hjaltested, Sigurður Dagbjartsson, Sædís Lind, Elvar G., og Rakel Magnúsdóttir. Húsið opnar klukkan 21:30 og stendur skemmtunin til 01:00.
Ball haldið til heiðurs Sölva
Hugmyndin að Sölvaballinu kom þegar Sölvi Ragnarsson, meðlimur Hljómlistarfélagsins, var fertugur. „Hann er búinn að vera guðfaðir allra þeirra sem hafa verið að spila á hljóðfæri í Hveragerði og var alltaf boðinn og búinn að lána bílskúrinn og græjur og allt það. Ballið var haldið til þess að heiðra hann. Það var bara djamm, ókeypis inn og opinn hljóðnemi. Það hefur líklega verið 1992. Síðan hefur þetta verið haldið á hverju ári. Það datt út eitt ár í Covid og eitt ár einhvern tímann á 90‘s tímabilinu,“ segir Heimir Eyvindarson, meðlimur Hljómlistarfélagsins, í samtali við DFS.
Enda þetta með stæl
Aðspurður af hverju Hljómlistarfélagið láti þetta gott heita eftir ballið í kvöld segir Heimir að skipulagning taki mikinn tíma og mikla vinnu. „Margir af formönnunum í Hljómlistarfélaginu starfa utan Hveragerðis núna. Það eru bara tveir sem starfa í Hveragerði. Á tímabili var Sævar Þór, næstyngsti formaðurinn, sá eini sem starfaði í Hveragerði. Þannig að þetta var orðið svolítið erfitt í framkvæmd. Við ákváðum að þetta væri bara orðið of mikið og við gerðum þetta ekki nógu vel í fyrra, þess vegna ætlum við að enda þetta með stæl núna.“
Heimir vonar að einhverjir ungir og ferskir aðilar taki við keflinu af því að Sölvakvöldið sé æðislegur viðburður.
Ágóðinn rennur til góðra málefna
Ágóðinn af Sölvakvöldinu hefur alltaf runnið til góðra málefna. „Við höfum reynt að styrkja ungt fólk til listnáms, eins ef einhverjir hafa verið að gefa út plötur eða halda myndlistarsýningar. Einnig ef einhver hefur átt um sárt að binda sem við vitum um,“ segir Heimir.
Hann segir að tvær greinar séu í lögum Hljómlistarfélagsins. Fyrsta er sú að allir eru formenn og hin er að eina markmiðið þeirra sé að láta gott af sér leiða. „Við höfum aldrei þegið laun fyrir þessa vinnu,“ tekur Heimir fram.
„Hljómlistarfélagið var stofnað utan um þessa viðburði sem við vorum með í gangi. Þá var vorfagnaður og eitthvað í kringum Blómstrandi daga og svo Sölvakvöldið. Við stofnuðum félagið líklega 2008.“ Félagið hefur líka haldið tónleika til styrktar einhverjum sem hafa þurft á því að halda. Sölvakvöldið er eini viðburðurinn sem hefur verið fastur öll þessi ár. „Við úthlutum alltaf styrkjum á bóndadegi og þá fer peningurinn sem við eigum í sjóði til einhverra góðra málefna,“ segir Heimir.
Að lokum vill Heimir koma á framfæri þökkum til allra sem hafa stutt þá í þessu í gegnum árin. Það hafi verið margir. „Fyrstu árin var Olaf Forberg dyggur stuðningsmaður. Svo er það Hótel Örk, Hveragerðisbær og allskonar góðir aðilar sem hafa komið að þessu og hjálpað okkur. Fyrst og fremst þakkir til allra tónlistarmannanna sem hafa alltaf verið boðnir og búnir að spila og þiggja ekki nein laun fyrir alveg eins og við.“