2.3 C
Selfoss

Fráveituframkvæmdir styrktar um tæpar 700 milljónir

Vinsælast

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að úthluta alls 694 m.kr. í styrki til sveitarfélaga vegna fráveituframkvæmda fyrir árið 2024. Styrkirnir eru veittir á grundvelli reglugerðar um úthlutun styrkja til fráveitna sveitarfélaga.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið auglýsti fráveitustyrkina í tvígang á árinu, í maí og aftur í október. Alls hlutu samþykki 20 umsóknir sem bárust frá 15 sveitarfélögum; Grundarfjarðarbæ, Ísafjarðarbæ, Garðabæ, Sveitarfélaginu Árborg, Húnabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppi, Mosfellsbæ, Hrunamannahreppi, Sveitarfélaginu Vogum, Grindavíkurbæ, Sveitarfélaginu Hornafirði, Akureyrarbæ, Hveragerðisbæ, Sveitarfélaginu Ölfusi og Múlaþingi. Í heild nemur áætlaður kostnaður sveitarfélaganna vegna fráveituframkvæmda á árinu 2024 um 2.734 m.kr.

Fráveitustyrkir eru veittir árlega vegna framkvæmda við safnkerfi fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir en einnig framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags. Úthlutunarreglur gera ráð fyrir að styrkveiting til stærri sveitarfélaga nemi allt að 20% af útlögðum kostnaði og að minni sveitarfélög, með færri en 4.000 íbúa, fái allt að 30% af útlögðum kostnaði.

„Fráveitumál eru mikilvæg umhverfismál en fráveituframkvæmdir geta verið umfangsmiklar og dýrar. Það er því mikilvægt að ríkið styðji við málaflokkinn svo sveitarfélög geti gert átak í fráveitumálum og dregið með aukinni hreinsun skólps úr mengun vatns og sjávar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Nýjar fréttir