-4.9 C
Selfoss

Feykilega góð hörpuskel

Vinsælast

Arnar Guðjónsson er matgæðingur vikunnar.

Jæja, ég þakka Kalla fyrir valið. Þetta er í annað sinn sem maður er mættur í þennan lið og fólk líklega alveg komið með nóg af manni.

Ég ætla að henda í forrétt sem ég mæli með um hátíðarnar, hann er nokkuð einfaldur en það þarf að vera forsjá og byrja fyrstu skrefin tímanlega. Þessi réttur er eitthvað sem stórvinur minn og ein bjartasta von Snæfellsness, Andri Freyr Hafsteinsson, kynnti mig fyrir.

Pikkluð sinnepsfræ

3 hlutar edik, 2 hlutar sykur og 1 hluti vatn sett í pott. Þegar suðan kemur upp bæta sinnepsfræum út í og sjóða í 5 mín eða þar til þau hafa tvöfaldast. – Hella svo í krukku og geyma í stofuhita í lágmark sólarhring áður en þau eru borðuð.

Pikkluð epli

Skerið epli í litla teninga, 2mm x 2 mm, og setja í krukku. Sjóðið saman edik, sykur og vatn í sömu hlutföllum og hér fyrir ofan og hellið yfir eplin. – Geymt í ísskáp í sólarhring.

Ostakex

Feykir er rifinn niður og settur á smjörpappír í litla hauga. Bræddur á 220° í sirka 12 mín á smjörpappír eða þar til gullinbrúnt. Á að enda eins og Ritz-kex.

Sósa

– Japanskt mæjó í túbu.

– Þurrkað chilli

– 2 msk. sojasósa

– Smá paprikukrydd

– Minna af cajan.

Hrært saman

Hörpuskel 

– Léttsteikt á pönnu upp úr smjöri, salt og pipar.

– Leyfa henni að kólna.

– Setja svo pikkluðu sinnepsfræin og eplin á hörpuskelina og leyfa því að liggja saman í nokkra klst.

Samsetning

Púslið þessu saman helst ekki meira en 20 mín áður en þetta er borið fram. Fyrst er sósa sett á kexið, næst sett blandan af sinnepsfræum, eplum og hörpuskel á kexið. Má svo skreyta með annaðhvort capers eða steinselju.

Rétturinn tilbúinn.

Ég ætla svo að skora á annan innflytjanda á Suðurlandið en það er landsliðsfyrirliðinn okkar í körfubolta, hann Ægir Þór Steinarsson.

Nýjar fréttir