-6.3 C
Selfoss

Grunnskólinn í Hveragerði safnaði 2,2 milljónum fyrir Minningarsjóð Bryndísar Klöru

Vinsælast

Síðastliðin ár hefur haldist sú hefð að halda góðgerðardaga í lok nóvember í Grunnskólanum í Hveragerði. Þá vinna nemendur í þrjá daga við að búa til ýmsar vörur sem eru svo seldar á markaði sem er opinn öllum. Tilgangurinn er að efla samkennd nemenda og láta gott af sér leiða. Ár hvert eru ný samtök styrkt og ákváðu nemendur í þetta sinn að styrkja Minningarsjóð Bryndísar Klöru. Söfnuðust hvorki meira né minna en 2,2 milljónir.

Bryndís Klara lést í kjölfar hnífaárásar á menningarnótt í Reykjavík. Markmið sjóðsins er að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.

Haldin var athöfn í grunnskólanum í morgun þar sem foreldrar Bryndísar Klöru, Birgir Karl Óskarsson og Iðunn Eiríksdóttir, komu og tóku við styrknum og þökkuðu vel fyrir sig. Júlía Dís Sigurðardóttir, formaður nemendaráðs, og Atlas Bragi Kjartansson, yngsti nemandi skólans, afhentu styrkinn. Í kjölfarið sungu allir nemendur, starfsfólk og aðrir utanaðkomandi jólalög undir stjórn Sævars Þórs Helgasonar skólastjóra.

Foreldrar Bryndísar Klöru þökkuðu vel fyrir styrkinn.
Ljósmynd: DFS.IS/EHJ.
Allir nemendur skólans voru viðstaddir athöfnina.
Ljósmynd: DFS.is/EHJ.

Samtök sem Grunnskólinn í Hveragerði hefur áður styrkt eru eftirfarandi:

  • 2015: Amnesty International (460.00 kr.-)
  • 2016: Félag krabbameinssjúkra barna (810.000 kr.-)
  • 2017: Barnaspítali Hringsins (1.360.000 kr.-)
  • 2018: Birta, landssamtök þar sem foreldrar sem misst hafa börn sín skyndilega geta sótt styrk og stuðning (1.750.000 kr.-)
  • 2019: Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna (1.480.000 kr.-)
  • 2020: Féll niður vegna Covid
  • 2021: Dropinn, styrktarfélag barna með sykursýki (1.400.000 kr.-)
  • 2022: Einstök börn, stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni (2.184.000 kr.-)
  • 2023: Samtökin Ljónshjarta, samtök til stuðnings fólki sem misst hefur maka og barna sem misst hafa foreldri (2.000.000 kr.-)
  • 2024: Minningarsjóður Bryndísar Klöru (2.200.000 kr.-)

Nýjar fréttir