-6.3 C
Selfoss

Gleðilega hátíð kæru íbúar í Svf. Árborg

Vinsælast

Árið 2024 hefur verið viðburðaríkt á marga vegu og allt í einu er desember genginn í garð með tilheyrandi undirbúningi jólahátíðar og áramóta. Lífsreynsla ársins er mikil og þakklæti ofarlega í huga þegar hugsað er til baka og áhugaverð atvik rifjuð upp. Margt sem við getum glaðst yfir ásamt því að læra af reynslunni og gera betur á næsta ári. Sveitarfélagið Árborg er samfélag sem ég er stoltur að tilheyra og mun alltaf reyna að gera mitt besta fyrir Árborg okkar allra.

Viðburðaríkt ár

Árborg er þekkt fyrir skemmtilegar sumarhátíðir og fjölbreytt viðburðahald um allt sveitarfélagið sem ásamt leikjum og íþróttamótum settu sinn svip á mannlífið. Íbúar sveitarfélagsins urðu 12 þúsund á árinu og fjöldi verkefna á fagsviðum kom til framkvæmda sem höfðu að markmiði að bæta þjónustu við íbúa. Mætti þar nefna að Leikskólinn Árbær tók upp Hjallastefnuna, sundlaugin á Stokkseyri var endurnýjuð og rafræn þjónusta aukin. Einnig var tekið upp spartunnukerfi sem gefur möguleika á færri sorptunnum við heimili og styður við aukna flokkun úrgangs sem gengur vel hjá okkur íbúum. Þetta er aðeins brot af þeim verkefnum sem kjörnir fulltrúar og starfsmenn hafa komið að og vil ég þakka þeim öllum fyrir ómetanlegt framlag á árinu.

Tækifærin eru til staðar

Breytingar innan bæjarstjórnar urðu í upphafi sumars þegar nýtt meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokksins og Áfram Árborgar hófst. Samstarf flokkanna hefur gengið vel og stefnan verið skýr við áframhaldandi verkefni að sýna ábyrgð í rekstri sveitarfélagsins. Þótt verkefninu sé alls ekki lokið þá var ánægjulegt að kynna fjárhagsáætlun Árborgar 2025-2028 með betri niðurstöðu en áætlað var og geta tilkynnt að álag á útsvar íbúa yrði aðeins þetta eina ár. Leggjum áfram áherslu á að tryggja grunnþjónustu við íbúa á öllum aldri og leitumst við að forgangsraða velferð.

Fjölmörg framkvæmdaverkefni eru á döfinni hjá sveitarfélaginu og einkaaðilum á nýju ári sem tryggja vonandi bætta þjónustu, fjölbreytt framboð á íbúðum og sterka innviði. Það er trú á svæðinu okkar, fjölbreytt þjónusta í boði sem ásamt öflugri menningu skapar samfélagið Árborg. Það er síðan undir okkur íbúunum að viðhalda þessum styrk með því að nýta þá afþreyingu og þjónustu sem er í boði.

Raunverulegu verðmætin

Samfélagið er á ógnarhraða og margir hlaðnir verkefnum tengdum vinnu, áhugamálum og fjölskyldu. Nú þegar jólahátíðin fer að ná hámarki þá hvet ég okkur öll til að gleyma ekki að njóta dagsins í dag. Hátíðin í ár hittir vel á vikudagana almennt og ég vona að flestir nái að njóta sem allra best með sínum nánustu. Þar liggja nefnilega hin raunverulegu verðmæti.

Ég kveð þetta ár með þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir kærleiksríka fjölskyldu, vini og að vera treyst af ykkur íbúum, ásamt þeim frábæra hópi sem skipar bæjarstjórn og nefndir Árborgar, fyrir því að leiða sveitarfélagið okkar áfram. Við erum að vinna fyrir samfélagið og viljum gera það sem allra best. Ég óska íbúum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Njótið jólahátíðarinnar.

Bragi Bjarnason,

bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg.

Nýjar fréttir