1.7 C
Selfoss

Vinsælustu jólabækurnar og kakó á Þorláksmessu

Vinsælast

Síðdegis á Þorláksmessu verður boðið upp á heitt kakó og smákökur í Bókakaffinu á Selfossi en þá er hápunktur jólavertíðarinnar eins og alþjóð veit.

Jólaverslunin hefur annars gengið vel til þessa en það hefur jafnan verið keppikefli Bókakaffisins að hafa gott úrval af bókum fremur en einblína á metsölulista. Nokkrar bækur eru þó vinsælli en aðrar og eru Ferðalok eftir Arnald Indriðason hvað vinsælust í flokki fagurbókmennta. Glæpasagnadrottingin Yrsa Sigurðardóttir er með bókina Ég læt sem ég sofi og er sú bók vinsælust í flokki glæpasagna. Í barnabókadeildinni er margt spennandi og þar hefur bókin Tjörnin eftir Rán Flygenring slegið í gegn og er hún núna uppseld hjá útgefanda. Bók Sævars Helga Bragasonar og Elíasar Rúnars, með þeim geðþekka titli, Kúkur, piss og prump, hefur líka verið mjög vinsæl. Þá eru bækur Þórarins Eldjárns Hlutaveikin og Dótarímur vinsælar í jólapakkann. Í flokki fræðibóka hefur verið vinsælust Búverk og breyttir tímar eftir Bjarna Guðmundsson og er bókin við það að seljast upp hjá útgefanda. Í ljóðabókum má nefna Jarðljós eftir Gerði Kristnýju og Undir eplatrénu Olav H. Hauge í þýðingu Gyrðis Elíassonar.

Þess má geta að í Bókakaffinu fást svo ekki einungis bækur heldur líka vínylplötur, gömul Íslandskort og púsl. Vinsælasta vínylplata ársins er Bewitched með Laufeyju.

Nýjar fréttir