Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson tryggði sér í gærkvöld Evrópumeistaratitilinn í handknattleik kvenna með norska landsliðinu. Liðið keppti til úrslita á móti Dönum og vann örugglega 31:23. Keppnin fór fram í Vín í Austurríki.
Þórir kveður með sínum sjötta Evrópumeistaratitli við stjórnvölinn hjá Noregi, en hann lætur nú af störfum eftir 15 ára starf.
Danir byrjuðu leikinn af krafti og komust nokkrum sinnum tveimur mörkum yfir. Eftir að Danmörk komst í 3:5 tókst Noregi hins vegar að jafna metin í 5:5.
Í kjölfarið var allt í járnum þar sem liðin skiptust á að ná eins marks forystu. Fór það svo að Noregur leiddi með einu marki, 13:12, að loknum fyrri hálfleik.
Norska liðið byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og skoraði fyrstu þrjú mörk hans og náði þannig fjögurra marka forystu, 16:12.
Noregur skellti í lás í vörninni í síðari hálfleik og hélt sínu striki í sókninni. Danska liðið réð ekki við það norska og niðurstaðan því öruggur átta marka sigur.