Við höfum lækkað fasteignaskattshlutfall um 45% á fimm árum og hyggjum á innviðafjárfestingar upp á 9 milljarða. Framkvæmdir hefjast við nýjan miðbæ, menningarhús, knattspyrnuhús og margt fleira. Þorp er að verða að bæ.
Í gær var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir Sveitarfélagið Ölfus.
Á forsendum þeirrar verðmætasköpunar sem tekist hefur að tryggja á seinustu árum eru nú allar forsendur til að skapa íbúum vaxandi velferð. Rekstur sveitarfélagsins skilar afgangi í bæði samstæðu og A-hluta og stefnt er að innviðafjárfestingum sveitarfélagsins upp á tæplega 4 milljarða á næsta ári, og hátt í 9 milljarða á næstu 4 árum.
Íbúar njóta góðs reksturs bæði í lægri gjöldum, aukinni þjónustu og sterkari innviðum. Fasteignaskattshlutfall er lækkað í 0,22 og hefur það þar með verið lækkað um 45% á sex árum.
Til grundvallar þessa trausta reksturs liggur uppgangur atvinnulífsins og ábyrg meðferð almannafjár. Markmiðið er að gera enn betur og sækja fastar fram á forsendum verðmætasköpunar.
Ráðgert er að rekstrartekjur samstæðu verði 5.797.730 kr. og rekstrargjöld 4.362.750 kr. Þannig verði rekstrarniðurstaða jákvæð sem nemur 938.042 kr. eða rúmlega 16% af heildartekjum. Veltufé frá rekstri er áætlað 1.843.230 kr. Fyrirhugað er að greiða langtímalán niður fyrir 239.980 kr.
Sé litið til A-hluta má sjá að samkvæmt áætlun verða rekstrartekjur 4.948.530 kr. og rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði 4.019.119 kr. Áætlunin gerir ráð fyrir að A-hluti verði rekinn með afgangi upp á rúmlega 704 milljónir.
Áætlunin ber í alla staði með sér að Ölfus er í sókn enda hefur íbúum á árinu fjölgað verulega. Höfuðáhersla er því lögð á að mæta þörfum vaxandi samfélags með áherslu á fræðslu- og fjölskyldumál svo sem með styrkingu félagsþjónustu og framkvæmdum við skóla.
Á komandi ári eru allverulegar fjárfestingar fyrirhugaðar enda verið að breyta þorpi í bæ. Heildareignfærðar fjárfestingar eru áætlaðar 1.900 millj. kr. nettó. Brúttófjárfestingar eru vel á fjórða milljarð. Þannig er áætlað að byggja nýjan leikskóla og koma þar með í veg fyrir biðlista, stækka höfnina, byggja nýjan miðbæ, hefja undirbúning að menningarhúsi og knattspyrnuhúsi svo eitthvað sé nefnt.
Áfram verður haldið með þá stefnu að bjóða upp á hagkvæmar lóðir á kostnaðarverði og þannig reynt að mæta vaxandi húsnæðisþörf án aukaskattlagningar á húsbyggjendur í formi lóðagjalda.
Þegar litið er til næstu fjögurra ára má sjá þann mikla sóknarhug sem er í samfélaginu í Ölfusi því ráðgert er að nettó fjárfestingarkostnaður verði rúmlega 6 milljarðar og brúttó fjárfesting gæti því vel legið nærri 9 milljörðum.
Samhliða þessum mikilvægu þáttum er áfram allra leiða leitað til að létta álögur á bæjarbúa og styðja við bakið á þeim.
Áfram verður haldið á að bæta innviði og hvergi kvikað frá þeirri stefnu að fjölga íbúum á forsendum trausts atvinnulífs. Framundan eru stærstu atvinnufjárfestingar Íslandssögunnar þar sem m.a. er fyrirhugað að verja 300 til 400 milljörðum í uppbyggingu laxeldis á landi. Þá er unnið að fjölmörgum öðrum nýsköpunarverkefnum bæði í dreifbýli og þéttbýli. Má þar til að mynda nefna: baðlón, gróðurhús, skelrækt, gagnaver, smáþörungarækt, drykkjarvöruframleiðslu og margt fleira. Til að þjónusta þennan mikla vöxt er unnið að stækkun hafnarinnar sem gerir mögulegt að þjónusta skip allt að 200 metra löng í stað þess 130 metra hámarks sem nú er.
Fjárhagsáætlunin nú ber það með sér að trúin á framtíðina sé rík og tækifæri til sóknar. Meðvituð um söguna er þó samhliða reynt af fremsta megni að taka mið af tvísýnum efnahagshorfum samhliða því sem ráðist er í stórar framkvæmdir, mikilvægu viðhaldi sinnt af einurð og brugðist við þeim mörgu áskorunum sem fylgja fjölgun íbúa og sterkum vilja til að bæta þjónustu við íbúa.
Með vinsemd og virðingu
Elliði Vignisson,
bæjarstjóri Ölfuss.