Af hverju snjóar alltaf í jólaauglýsingunum? Fjölskyldur birtast þar sem börnin eru vel greidd, vel sofin og vel upp alin, foreldrarnir gjörsamlega áhyggju- og streitulausir og hafa aldrei þurft að leysa úr ágreiningi, þar sem allt leikur í lyndi og öll samskipti eru áreynslulaus. Við finnum það öll hvað þessar staðalmyndir eru okkur ógagnlegar, óhjálplegar og lítið styðjandi. Við vitum að fjölskyldur eru alls konar og að tilfinningar og líðan á jólum er alls konar. Eitt af því sem jólin gera við okkur er það að á einhvern hátt þá segja þau okkur satt um líf okkar. Þegar allt er í lagi í lífi okkar, eins langt og það nær, þá finnum við það á jólunum og fyllumst vonandi þakklæti. Og þegar eitthvað vantar, þegar eitthvað er að, þá finnum við það líka svo sterkt á jólunum. Það er eitt af því sem jólin gera við okkur, þau opna hjarta okkar og jafnvel líka þau hólf sem við viljum ekkert sérstaklega hafa með að gera, þau sem geyma sára reynslu af t.d. missi og áföllum. Þegar við syrgjum og söknum, þar sem búið er við kröpp kjör, þar sem glímt er við veikindi eða þar sem gæði náinna tengsla eru af skornum skammti, þá verður þetta allt meira áberandi um jólin, ýmislegt sem við kannski getum leitt hjá okkur í annan tíma.
Í hjarta jólaguðspjallsins er sannarlega engin glansmynd. Þar hittum við fyrir samsetta fjölskyldu, þungaða ógifta unglingsstúlku og ráðvilltan unnusta hennar á hrakhólum í veröld sem lætur sér í besta falli standa á sama um þau. En þau Jósep og María völdu að takast á við lífið eins og það kom til þeirra. Sögu barnsins þekkjum við, litla Jesúbarnsins.
Ekkert hreyfir við okkur eins og lítið barn. Það er varla hægt að bregðast öðruvísi við litlu barni en að elska það, mynda við það tengsl, því barnið horfir á þig og spyr með augunum: má ég treysta þér?
Lífið snýst um tengsl. Ein mesta heilsufarsógn samtíma okkar, kvíði og einsemd, varðar að hluta tengslaleysi. Tengslaleysi við okkur sjálf, hvert annað og við æðri mátt. Lífshamingja okkar veltur að svo miklu leyti á því hvernig okkur lánast að mynda tengsl og rannsóknir sýna að þau okkar sem eiga innihaldsrík og náin tengsl við aðra eru líklegri til að skilgreina sig sem hamingjusamar manneskjur.
Saga jólanna er um þetta. Hún er um það sem gerist andspænis litla barninu í jötunni sem vill mynda við þig tengsl, biður þig að elska sig og vill fá að búa hjá þér. Hún er líka um það val sem við eigum öll í lífinu við allar aðstæður. Við eigum alltaf val um það að takast á við lífið eins og það kemur til okkar hverju sinni en ekki fallast hendur andspænis verkefnunum sem okkur eru falin, taka því sem að höndum ber með æðruleysi og í trausti. Um leið eigum við líka val um að horfa í augu samferðafólks okkar og virða líf þeirra. Við eigum alltaf val um það að sjá og reyna að skilja, átta okkur á að öll erum við að taka okkar ákvarðanir, heyja okkar baráttu og reyna að gera vel, að enginn á einfalt líf og fæst eigum við lífið eins og til stóð að hafa það, a.m.k. í öllum lykilatriðum.
Jesúbarnið laðar fram í okkur vitund um að við séum systkin, allar manneskjur og ekki bara það heldur einnig vitund um að öll sköpunin, allt sem lifir, tengist. Og von okkar nú, í veröld sem okkur kann að virðast komin að fótum fram, er sú að náungakærleikurinn í brjósti okkar nái ekki aðeins til þeirra sem standa okkur næst svo tengsl okkar við þau verði traust, nærandi og gefandi, heldur nái hann til hverrar manneskju. Maðurinn er þannig af Guði gerður að geta tekist á við erfiðar aðstæður með krafti og von og hæfni til þess að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi. Boðskapur jólanna er sá að það er engin ástæða til þess að tapa voninni heldur þvert á móti næra hana og rækta, opna huga okkar og hjörtu og takast óhikað og með opnum huga á við verkefni lífsins. Guð gefi þér og þínum gleðileg jól.
Ninna Sif Svavarsdóttir,
Sóknarprestur Hveragerðisprestkalls.