6.7 C
Selfoss

Hákon og Ívar halda jólatónleika í Midgard

Vinsælast

Sunnlendingarnir Hákon Kári Einarsson og Ívar Dagur B. Sævarsson halda sína fyrstu jólatónleika föstudaginn 13. desember nk. klukkan 21 í Midgard á Hvolsvelli. Þeir fá með sér einvalalið hljóðfæraleikara. Smári Orrason trommar og Matthías Hlífar Pálsson spilar á bassa. Einnig verður Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir með þeim. Hákon syngur, spilar á hljómborð og kassagítar. Ívar spilar á gítar, syngur raddir og fer með gamanmál. „Búast má við einlægri sviðsframkomu, gleði og flottum göllum,“ segir Ívar Dagur í samtali við Dagskrána. Miðasala tónleikanna fer fram við hurð.

Ætla að spila næstu 50-60 árin

Aðspurður hvernig það hafi komið til að halda jólatónleika segir Ívar Dagur að þeir félagar sjái fyrir sér að starfa við þetta í framtíðinni. „Þetta er eitthvað sem við ætlum að vera að gera næstu 50-60 árin þannig að einhvers staðar og einhvern tímann verður maður að byrja!“

Hátíðarbragur verður yfir tónleikunum og má búast við alls konar tónlist. „Bæði hefðbundin lög sem þjóðin þekkir í bland við lög sem við höfum þurft að grafa örlítið eftir. Hver veit nema að við spilum eitthvað sem við sömdum sjálfir,“ segir Ívar Dagur.

Hafa spilað lengi saman

Hákon og Ívar kynntust þegar þeir spiluðu saman fótbolta í 3. flokki á Selfossi. Seinna byrjuðu þeir að spila saman tónlist í hljómsveitinni KÓMA í menntaskóla. Undanfarið hafa þeir svo verið saman í hljómsveitinni Koppafeiti sem hefur verið að gera góða hluti á Suðurlandi. Báðir eru strákarnir með bakgrunn í tónlist. Hákon stundaði píanónám í Tónlistarskóla Rangæinga í níu ár og lærði einnig í eitt ár við Tónlistarskóla FÍH. Ívar var í sex ár í píanónámi í Tónlistarskóla Árnesinga og tvö ár í gítarnámi í sama skóla.

Ívar segir undirbúning tónleikanna hafa gengið vel og að mikil spenna sé fyrir föstudeginum. Ásamt því að vera með eigin tónleika spiluðu þeir á jólatónleikum með Elísabetu Björgvinsdóttur 11. desember sl. og spila þeir á einu og einu jólaballi hér og þar. Hljómsveitin Koppafeiti mun síðan spila á áramótaballi á Hvolsvelli.

Nýjar fréttir