Þegar jólin nálgast er ástæða til að vekja athygli á margvíslegu helgihaldi í kirkjunum okkar á Suðurlandi. Á svæðinu eru gullfallegir helgidómar sem sannarlega er vert að skoða og njóta. Ótal raddir sjálfboðaliða, kirkjukóra af öllum stærðum og gerðum, bera uppi söng jólanna sem ekki er síður dásamlegt að upplifa. Í Suðurprófastsdæmi, sem nær frá Selvogi í vestri og að Lóni (Eystra-Horni) í austri eru alls rúmlega 60 guðshús. Jólamessur verða í þeim vel flestum og má því fullyrða að nánast hvar sem borið verður niður í sveitum Suðurlands (og ekki má gleyma Vestmannaeyjum!) megi finna söng og helgi jólanna á tímabilinu frá 20. desember og inn í nýár. Allar upplýsingar um helgihaldið í kirkjunum má finna á fésbókarsíðu Suðurprófastsdæmis.
Sjáumst í kirkju um jólin – á Suðurlandi!
Óskar Hafsteinn Óskarsson,
prófastur