-4.9 C
Selfoss

Jólalasagna

Vinsælast

Jón Einar Valdimarsson er matgæðingur vikunnar.

Komið þið sæl kæru lesendur.

Ég vil þakka elsku Gunnari Ásgeiri fyrir þessa áskorun, það kom mér reyndar skemmtilega lítið á óvart að hann skyldi velja mig, þar sem við erum mikið að skiptast á uppskriftum. Hins vegar kom það mér smá á óvart að hann skyldi velja kalkúnauppskrift. Eins og hjá Gunnari átti ég erfitt með að velja á milli rétta en að lokum fannst mér réttast að velja rétt sem hægt væri að nota við öll tilefni og ég valdi að segja ykkur frá lasagna-réttum sem ég hef verið að þróa síðustu tíu ár. Ég vona að við þennan lestur líði ykkur lesendum eins og þið séuð með mér í eldhúsinu að elda.

Ég legg mikla áherslu á að hráefnið sé vel valið og ég mæli sérstaklega með heimaslátruðu nauta- eða kindahakki í þennan rétt og helst ógerilsneyddri mjólk. Gott er að hafa hrásalat með þessu og mæli ég eingöngu með íslensku hrásalati, ef það er ekki íslenskt er betra að sleppa því og hafa bara hvítlauksbrauð.

Þegar ég byrja að elda reyni ég að koma mér í gott skap og set La Bamba á fóninn en syng í staðinn „La la la la lasagna“. Stilli ofn á 200 gráður, ekki stilla á blástur. Því næst skelli ég olíu og hakki á pönnuna og steiki með alls konar kryddum sem mér þykja góð, eins og steikarkryddi og hvítlauksdufti. Þegar ég hef steikt og kryddað þá sæki ég tómatmauk og skelli út í, leyfi þessu að malla meðan ég geri uppstúf. Svo set ég smjör í pott og bræði hægt og rólega en á þessum tímapunkti má skella aftur La Bamba á fóninn. Þegar smjörið er bráðnað þá má skella smá hveiti (eingöngu íslensku Kornax-hveiti) út í og búa til smjörkúlu. Næst helli ég ofurvarlega mjólk út í og þynni vel. Til þess að gera uppstúfinn fullkominn þá skelli ég múskati eftir þörfum og ég set alltaf meiri múskat þegar jólin nálgast til að fá þennan alvöru jólakeim. Þegar uppstúfurinn er klár, þá geri ég það sem margir muna gapa yfir en ég blanda hakkinu við uppstúfinn. Sæki næst stórt eldfast mót og ausu og byrja að ausa hakki og uppstúf og botnfylli fatið og skelli svo lasagna-plötum yfir. Endurtek þetta þangað til hakkið klárast, skelli svo osti yfir allt og hendi inn í ofn í ca 25-27 mín.

Meðan ég er með lasagna í ofninum græja ég hrásalat. Það er nokkuð einfalt og ættu flestir að geta gert það en ég nota enga ávexti í það heldur bara íslenskt hvítkál, mæjónes og sýrðan rjóma. Fyrir lengra komna er gott að setja karrí en það gerir ekki bara betra bragð heldur kemur skemmtilegur litur á salatið. Þegar allt er klárt og lasagnað tilbúið þá skelli ég La Bamba aftur á fóninn og hækka vel þannig að allir komist í sama stuð og ég. Njótið.

Mig grunar að þið lesendur séuð komin með vatn í munninn og hlakkið til að prófa.

Að lokum vil ég skora á yndislegan vin og kokk, hann Karl Ágúst Hannibalsson, að koma með góða uppskrift.

Nýjar fréttir