6.1 C
Selfoss

Upplestur á Brimrót

Vinsælast

Laugardaginn 7. desember kl. 14 verður upplestur á vegum Bókabæjanna austanfjalls á Brimrót. Þetta er fyrri upplestur af tveim en sá seinni verður laugardaginn 14. desember.

Fjórir frábærir höfundar koma og lesa upp úr bókum sínum á þessum fyrri upplestri. Það eru þau Guðmundur Andri Thorsson, Sunna Dís Másdóttir, Emil B. Karlsson og Sigrún Erla Hákonardóttir.

Guðmundur Andri hefur setið á þingi auk þess að hafa skrifað fjölda bóka en bókin Synir himnasmiðs er fyrsta bókin hans í tíu ár. Bókin er heillandi skáldsaga um tólf karlmenn og regnvotan maídag í lífi þeirra. Atvik dagsins og lífssögur þeirra vindast og bindast saman svo úr verður litríkur vefur umleikinn tónlist og trega.

Sunna Dís Másdóttir hefur getið sér afar gott orð sem bókmenntarýnir í Kiljunni m.a. en hún er líka hluti af hinum kyngimagnaða Svikaskáld hóp. Kul er fyrsta skáldsaga Sunnu og gerist að stærstum hluta á nýstofnuðu meðferðaúrræði vestur á fjörðum þar sem ástundaðar eru óhefðbundnar lækningameðferðir.

Emil B.Karlsson er löggiltur skjalaþýðandi og viðskiptafræðingur og sendir frá sér bókina Sjávarföll – ættarsaga sem er fjölskyldusaga fimm ættliða þar sem arfgeng heilablæðing hefur fellt marga einstaklinga. Sagan fer mest megnis fram á hrjóstrugum eyjum Breiðafjarðar.

Sigrún Erla Hákonardóttir hefur kvatt sér hljóðs með þessari nýju ljóðabók sem heitir einmitt Hljóð. Ljóðin eru margslungin og fjölbreytt, bæði hefðbundin og óhefðbundin, löng og stutt, víðfeðm og stuttar sendingar eins og styttri lög.

Upplesturinn hefst eins og áður segir kl. 14 og er á Brimrót, Hafnargötu 1, Stokkseyri.

Nýjar fréttir