-2.7 C
Selfoss

Stórfenglegir tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands og Menntaskólans að Laugarvatni

Vinsælast

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands hélt jólatónleika sína í Skálholti föstudaginn 29. nóvember og laugardaginn 30. nóvember ásamt kór Menntaskólans að Laugarvatni. Af aðdáun fylgdumst við með þessu öfluga fólki sem steig á stokk, bæði hljóðfæraleikurum og kórsöngvurum, en ekki síst stjórnendum beggja hópa. Það gustar af öflugu fólki sem skapar menningarverðmætin sem eru kórar og sinfóníuhljómsveitir. Það getur ekki verið annað en hugsjón og ástríða sem býr að baki þeirri miklu vinnu sem þarna hefur verið lögð fram. Til hamingju bæði, Guðmundur Óli og Eyrún!

Skálholtsdómkirkja í nóvembermyrkrinu.
Ljósmynd: Aðsend.

Að einsöngvurum tónleikanna ólöstuðum, þau voru sannarlega af bestu gerð þau Dísella Lárusdóttir og Eyjólfur Eyjólfsson, þá voru bæði sinfóníuhljómsveitin og kórinn algerlega stórfengleg. Það er erfitt að koma orðum að því hvernig tilfinning það er að sitja í kirkjunni sem áheyrandi. Tónar frá heilli sinfóníuhljómsveit fylla kirkjuna og svo bætast við þessar rúmlega eitt hundrað kraftmiklu raddir. Í fleiri en einu lagi átti ég erfitt með að ná andanum, svo mikilfengleg var upplifunin, hrifningin og aðdáunin. Það hefði jafnvel þurft að gera lengra hlé á milli laga svo áhorfendur í sal fengju þá tækifæri til að jafna sig en jafnvel hörðustu naglar þurrkuðu tár af hvarmi svo lítið bar á.

Kórfélagar næra sig á milli tónleika.
Ljósmynd: Aðsend.
Nemendur í kórstjórn sáu um miðasölu á tónleikum.
Ljósmynd: Aðsend.

Að hugsa sér. Allir þessir hljóðfæraleikarar, söngvarar, listafólk, hæfileikar; allt er þetta fengið hér úr okkar eigin garði. Það blómstrar sannarlega það sem við veitum athygli og alúð eins og við sjáum raungerast bæði í ML og sprotaverkefnum eins og Sinfó Suðurlands. Stuðningur okkar allra við tónlistarstarf og menningarviðburði skiptir sköpum og hlutverk okkar sem ölum upp ungviði er að styðja þau til að virkja og efla hæfileika sína.

Linda Blöndal, Margrét Blöndal, Margrét Elín Ólafsdóttir, verkefnastýrur.
Ljósmynd: Aðsend.

Ég vil hér með koma á framfæri innilegum þökkum Menntaskólans að Laugarvatni til Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands fyrir samstarfið en það hefur verið alveg einstakt að fá að fylgjast með þessu verkefni undanfarið hálft ár. Sérstakar þakkir sendi ég Margréti Blöndal, framkvæmdarstjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar og Margréti Elínu Ólafsdóttur, verkefnastjóra kórsins, sem skipulögðu og framkvæmdu af mikilli fagmennsku allt sem þarf til að viðburður af þessum toga geti orðið að veruleika. Límið í utanumhaldi um rúmlega 100 manna kór voru án efa þau Pálmi Hilmarsson og Erla Þorsteinsdóttir, starfsfólk ML, og dyggur bakhjarl tónleikanna og kórsins er FOMEL, foreldrafélag Menntaskólans að Laugarvatni og sendi ég þeim öllum mínar innilegustu þakkir.

Með kærri aðventukveðju til Sunnlendinga, 

Jóna Katrín Hilmarsdóttir,

skólameistari Menntaskólans að Laugarvatni.

Nýjar fréttir