6.1 C
Selfoss

Flokkur fólksins stærstur í Suðurkjördæmi- „Þetta var bara klikkað“

Vinsælast

Söguleg tíðindi urðu í Suðurkjördæmi í Alþingiskosningunum er Flokkur fólksins stóð uppi sem stærsti flokkurinn þegar lokatölur voru birtar á sunnudag.

Flokkurinn fékk 20 prósent atkvæða í Suðurkjördæmi og 121 atkvæði fleiri en Sjálfstæðisflokkurinn sem var með 19,6 prósent. Báðir flokkar fá tvo þingmenn en Flokkur fólksins bætir við sig einum á meðan sjálfstæðismenn tapa einum.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, oddviti Flokks fólksins, verður fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis en auk hennar náði Sigurður Helgi Pálmason inn.

„Þetta var bara klikkað,“ segir Ásthildur Lóa um niðurstöðurnar í samtali við Dagskrána. Flokkurinn var á tímabili efstur í skoðanakönnunum en Ásthildur segist samt ekki endilega hafa búist við þessu. „Sérstaklega af því mestalla nóttina var Sjálfstæðisflokkurinn efstur. Ég fór að sofa um fimm leytið og vakna svo klukkan sjö og sá að ekkert var búið að breytast þannig að ég fór aftur að sofa en var svo vakin af blaðamanni Vísis klukkan tíu og hann færði mér fréttirnar.“

Aðspurð að því hvort hún haldi að Flokkur fólksins fari í ríkisstjórn segir hún að erfitt sé að ganga framhjá flokknum. „Við höfum barist af öllu afli í stjórnarandstöðu og við viljum koma okkar málefnum á framfæri.“ Hún segir að ef til þess komi hljóti hún að koma til greina sem ráðherra en að hún vilji fyrst og fremst að hæfasta fólkið sé valið í hvert ráðuneyti.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins verða Guðrún Hafsteinsdóttir, starfandi dómsmálaráðherra, og Vilhjálmur Árnason, sitjandi þingmaður flokksins.

Þriðji stærsti flokkurinn í Suðurkjördæmi er Samfylkingin sem hlaut 17,3 prósent atkvæða og tvo þingmenn. Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, og Ása Berglind Hjálmarsdóttir verða þingmenn flokksins, en flokkurinn bætir við sig einum þingmanni frá síðustu kosningum.

Miðflokkurinn hlaut 13,6 prósent atkvæða og einn kjördæmakjörinn þingmann, Karl Gauta Hjaltason, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum.

Framsóknarflokkurinn hlaut tólf prósent atkvæða og tvo þingmenn. Halla Hrund Logadóttir, fyrrverandi orkumálastjóri, varð eini kjördæmakjörni þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, vék úr oddvitasætinu fyrir henni og var úti þegar lokatölur bárust en náði inn sem jöfnunarþingmaður þegar lokaúrslit lágu fyrir.

Viðreisn hlaut 11,2 prósent og bætti við sig fimm prósentustigum frá síðustu kosningum. Hann bætir samt sem áður ekki við sig þingmanni. Guðbrandur Einarsson er eini sem náði inn. Hann hefur setið á þingi fyrir flokkinn frá 2021.

Aðrir flokkar náðu ekki inn manni. Vinstri græn töpuðu rúmum sex prósentustigum frá því í síðustu kosningum og hlutu 1,3 prósent atkvæða. Píratar voru einnig með 1,3 prósent atkvæða og töpuðu 4,3 prósentustigum frá því síðast. Báðir flokkar þurrkuðust út af þingi.

Nýjar fréttir