3.9 C
Selfoss

Sjálfstæðisflokkurinn – Býður fram öflugt lið fyrir Suðurkjördæmi

Vinsælast

Við í Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi stillum upp öflugum hópi fólks til að vinna hag okkar sem bestan í komandi þingkosningum þann 30. nóvember næstkomandi. Það skiptir máli hverja við kjósum því verkefnin framundan eru fjölmörg og mikilvæg. Við þurfum besta liðið í verkið.

Suðurkjördæmi er stórt og fjölbreytt kjördæmi – með frábæru fólki og öflugu atvinnulífi. Á svæðinu er íbúafjölgun mest á landinu öllu, mikið af auðlindum og langflestir ferðamenn sem sækja landið okkar heim. Þessu fylgja óhjákvæmilega vaxtaverkir og áskoranir en jafnframt fjölmörg tækifæri.

Í framvarðasveit Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi er öflugt fólk úr kjördæminu með mikla reynslu og fjölbreyttan bakgrunn, sem bæði reynir á eigin skinni þær áskoranir sem íbúar Suðurkjördæmis upplifa en jafnframt brennur fyrir því að styrkja kjördæmið og öll þau sem þar búa og starfa.

Síðastliðin misseri höfum við þurft að takast á við stórar áskoranir, bæði sem þjóð en líka sem samfélag. Efnahagslífið hefur upplifað áföll eins og heimsfaraldur, stríðsrekstur í Evrópu og náttúruhamfarir. Samhliða þessu margfölduðust umsóknir um alþjóðlega vernd sem reyndi mikið á innviði okkar og kerfi. Sveitarfélög hafa þurft að takast á við áföll í nærsamfélagi sínu, eins og náttúruhamfarir, brottflutning heils sveitarfélags og að orkuöryggi þeirra sé stefnt í hættu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mætt þessum aðstæðum af festu og ábyrgð þar sem hugað hefur verið að því að taka utan um einstaklinga og fyrirtæki. Kaupmáttur fólks hefur aukist 11 ár í röð, hagvöxtur hefur verið hvað mestur í Evrópu, mun meiri en innan ESB, og heimili og fyrirtæki hafa verið varin í gegnum þessar áskoranir. Þá hefur verið gripið til aðgerða til að tryggja orkuöryggi, þar sem innviðir hafa verið í hættu.

Sjálfstæðisflokkurinn býður fram öfluga sveit fólks með reynslu og þekkingu á málefnum kjördæmisins og skýra stefnu til að ná árangri fyrir okkur öll. Við leggjum áherslu á að byggja upp öflugar og öruggar samgöngur, viðhalda þeim mikla árangri sem hefur náðst undanfarið á landamærunum og herða tökin enn frekar. Þá viljum við standa með atvinnulífinu og skapa því betra rekstrarumhverfi en ekki auka skattheimtu þeirra. Við viljum fylgja eftir þeim fjölmörgu orkuverkefnum sem hefur verið komið af stað undanfarin misseri og þannig rjúfa kyrrstöðuna í orkumálunum. Við viljum lækka skatta, tryggja stöðugleika í húsnæðisuppbyggingu og blása til stórsóknar í menntakerfinu. Þá skiptir okkur öll máli að heilbrigðiskerfið mæti þörfum okkar og að við tryggjum tímanlega og góða heilbrigðisþjónustu um allt land. Við höfum góða sögu að segja af framförum á því sviði í kjördæminu með nýrri einkarekinni heilsugæslu í Reykjanesbæ, og viljum halda áfram á þeirri vegferð.

Tækifærin eru í Suðurkjördæmi. Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins höfum þekkingu og þor til að nýta þau fyrir okkur öll. Settu X við Sjálfstæðisflokkinn þann 30. nóvember næstkomandi.

Guðrún Hafsteinsdóttir, 1. sæti

Vilhjálmur Árnason, 2. sæti 

Ingveldur Anna Sigurðardóttir, 3. sæti 

Gísli Stefánsson, 4. sæti

Nýjar fréttir