-2.7 C
Selfoss

Lýðræði er á ábyrgð okkar allra

Kosningar eru hornsteinn lýðræðisins. Þegar kemur að þeim er ábyrgð okkar að nýta atkvæðisréttinn mikilvægari en margir gera sér grein fyrir. Þó að við sem samfélag höfum lengi búið við lýðræði er það ekki sjálfsagt. Það þarf að hlúa að því með virkri þátttöku.

Ef þú telur atkvæðið þitt ekki skipta máli, þá vil ég hvetja þig til að endurmeta þá afstöðu. Sérhvert atkvæði skiptir máli. Með því að gefa því smá tíma er t.d. hægt að kynna sér málin með því að taka þátt í umræðum eða nýta sér kosningapróf eins og það sem RÚV býður upp á. Þar getur þú borið saman svör flokka og metið hvort þau samræmist þínum gildum. En hafðu í huga að á bak við stefnuna stendur fólk. Spyrðu því sjálfan þig: Er þetta fólk sem ég treysti til að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á framtíðina?

Í lýðræðislegri umræðu er nauðsynlegt að greina milli raunhæfra umræðna og blekkinga. Ekki láta sannfæra þig um að það sé ekki hægt að samræma ólík mál. Það er hægt að skapa störf og vernda náttúruna á sama tíma. Það er líka hægt að byggja upp sterkt velferðarkerfi og bjóða flóttafólk velkomið. Þegar reynt er að stilla málum upp sem óásættanlegum andstæðum er oft verið að afvegaleiða umræðu. Slíkum málflutningi þarf að hafna.

Ég trúi því að lýðræði sé ekki aðeins réttur okkar heldur skylda. Vinstri hreyfingin grænt framboð stendur fyrir stefnu sem leggur áherslu á félagslegt réttlæti, umhverfisvernd, kvenfrelsi og jöfnuð. Við viljum tryggja að öll, ekki einungis þau ríku og valdamiklu, njóti góðs af samfélaginu. Eflum lýðræði, tökum afstöðu, mætum á kjörstað.

Þormóður Logi Björnsson,

3. sæti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi.

Nýjar fréttir