-7.8 C
Selfoss

Vettvangur voðaverka er nær þér en þú heldur

Vinsælast

Ofbeldi, einelti og smánun finna sér í sífellu nýjan vettvang og leitin að mögulegum fórnarlömbum er stöðug. Eins frábært og netið og snjallsíminn er þá eru þar hættulegar gildrur sem lagðar eru fyrir einkum börn og ungt fólk. Hættur sem geta haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir sjálfstraust, geðheilsu, líkamsmynd, námsárangur og félagsleg tengsl og stundum leiða þær til sjálfsvíga. Ungar stúlkur eru í sérstakri hættu en hún er ekki einskorðuð við þær. Baráttan gegn stafrænu ofbeldi er því snar þáttur í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi yfirleitt.

Dagana 25. nóvember til 10. desember stendur árlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi yfir. Því átaki var hrint úr vör af Sameinuðu þjóðunum og taka þúsundir kvenna- og mannréttindasamtaka þátt í því. Soroptimistar um allan heim, hér á Íslandi líka, taka þátt í átakinu undir yfirskriftinni Þekktu rauðu ljósin.

Vissir þú að 51% framhaldsskólanema og 20% nemenda í 8.-10. bekk hafa fengið sendar nektarmyndir á netinu? 29% framhaldsskólanema og 12% nemenda í 7.-10. bekk hafa fengið kynferðisleg komment á netinu og flest þeirra eru frá ókunnugum. 15% grunnskólanemenda og 11% í framhaldsskóla hafa upplifað að vera lögð í einelti á netinu. 45% framhaldsskólanemenda hafa verið eða eru með falskan/nafnlausan reikning á samfélagsmiðlum og stundum er stofnað til þeirra í því skyni að leynast. Ef þú ert foreldri barns á þessum aldri getur vettvangur ofbeldis verið nær þér en þú heldur.

Sum tilfelli kynferðislegs ofbeldis á netinu eiga rætur í því að kærasti biður kærustu sína um kynferðislegar myndir og myndbönd. Stúlkan getur orðið við þeirri beiðni í góðri trú á heilindi viðtakanda. Um leið og slíkt efni er sent er dreifing þess ekki lengur á valdi sendandans. Stundum er óskað eftir grófari og grófari myndum. Viðtakandinn getur hótað að dreifa þessum myndum áfram og gerir það einkum í refsingarskyni ef og þegar stúlkan vill losna úr sambandinu. Það er líka þekkt að gerendur villi á sér heimildir á netinu. 73% framhaldsskólanema hafa samþykkt vinabeiðnir frá ókunnugum. Meðal þeirra geta leynst gerendur í leit að fórnarlömbum.

 

Unglingsárin einkennast iðulega af því að unglingurinn vill víkka sinn heim og mynda tengsl utan við áhrifavald foreldranna. Foreldrar eiga því erfitt með að fylgjast með og setja mörk inni í heimi sem oftast er þeim sjónum hulinn. En það er hjálp að finna. Á eftirfarandi síðum er fræðsluefni ætlað foreldrum þar sem farið er yfir netöryggi, persónuvernd, samfélagsmiðla, tölvuleiki, friðhelgisstillingar og ýmislegt fleira með umræðupunktum fyrir foreldra. Á miðlalæsi.is má finna efni fyrir foreldra og kennara um samfélagsmiðla og líðan barna, fréttir og falsfréttir, áhorf á klám, hatur og einelti á netinu. Netumferðarskólinn.is og Skjárinn og börnin á vefnum heilsuvera.is innihalda einnig efni ætlað foreldrum. 112.is er með afar vandað efni um netöryggi og hvaða hegðun er í lagi, hver ekki og hvað eigi að gera eigi stafrænt ofbeldi sér stað. Vefir StígamótaBarnaheilla og margra fleiri eru einnig með greinargott efni um stafrænt ofbeldi.

Til þín sem foreldris: Stattu með barninu þínu. Fylgstu með skjánotkun og líðan barnsins þíns. Aflaðu þér upplýsinga um hvað stafrænt ofbeldi er og lærðu að þekkja það þegar rauðu aðvörunarljósin blikka. Talaðu við aðra foreldra og kynntu þér hvað skólinn er að gera til að fræða og aðstoða börnin við að verja sig. Og umfram allt, taktu samtalið með barninu þínu.

Hildur Jónsdóttir,

Soroptimistaklúbbur Suðurlands.

Nýjar fréttir