-14 C
Selfoss

Ég borga glaður skatta

Orðið „skattar“ er oft á flækingi í umræðunni, jafnan tengt neikvæðum tilfinningum og jafnvel notað sem skammaryrði. Þegar rætt er um að hækka skatta á einhvern hátt stíga margir fram og láta í ljós óánægju. Ég er ekki þar, ég er glaður skattgreiðandi.

Þrátt fyrir að hafa sjálfur lítið þurft á velferðarþjónustu að halda í gegnum tíðina, tel ég skatta vera undirstöðu sterks og sanngjarns samfélags. Ég er barnlaus og nýti ekki þjónustu eins og niðurgreidda leikskóla en það veldur mér engu hugarangri. Þvert á móti er hughreystandi að vita að skattar mínir fara í að styðja þau sem á þurfa að halda. Þetta er ekki spurning um persónulegan ávinning heldur samstöðu og félagslegt réttlæti. Það er okkar sameiginlega ábyrgð að standa vörð um og styrkja þau sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu.

Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég gæti orðið veikur, lent í slysi eða orðið atvinnulaus hvenær sem er. Þá mun velferðarsamfélagið sem ég styð standa með mér. En slíkt kerfi byggist ekki á loforðum einum saman – það þarf fjármögnun. Þess vegna þarf að skoða hvernig við nýtum skattkerfið sem tæki til að auka jöfnuð og bæta lífsgæði allra.

Vinstri hreyfingin grænt framboð leggur áherslu á réttlæti í skattkerfinu. Við viljum hækka skatta – en á réttum stað. Með sanngjörnum auðlindagjöldum og þrepaskiptum fjármagnstekjuskatti er hægt að tryggja að þau sem hafi mest leggi hlutfallslega meira til samfélagsins. Einnig þarf að hækka gjöld á þau sem eiga fleiri en tvö íbúðarhúsnæði og binda fyrir skattundanskot sem nýst hafa örfáum. Það er ekki bara sanngjarnt. Það er nauðsynlegt til að fjármagna menntun, heilbrigði og velferð fyrir öll.

Sterkt samfélag byggist ekki á einstaklingshyggju heldur samstöðu. Það snýst ekki um að taka sem mest út, heldur um að leggja inn fyrir heildina. Ég vil samfélag þar sem öll fá tækifæri og ég trúi því að réttlát skattheimta sé lykillinn að því. Við getum byggt samfélag sem sameinar manngæsku og réttlæti en það krefst sameiginlegrar ábyrgðar.

Þormóður Logi Björnsson,

3. sæti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi.

Nýjar fréttir