-4.4 C
Selfoss

Lyftistöng fyrir samfélagið

Vinsælast

Það er ekki á hverjum degi sem tvö stór framkvæmdaverkefni eru kynnt á svæðinu okkar á sama deginum. Hvað þá í sama sveitarfélaginu, en sá dagur var 20. nóvember þegar tekin var skóflustunga og framkvæmdaverkefni kynnt fyrir yfir 30 milljarða á næstu fjórum árum í Árborg.

Nýtt öryggisfangelsi á Eyrarbakka

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, kynnti áætlanir um uppbyggingu nýs öryggisfangelsis í landi Stóra-Hrauns við Eyrarbakka. Nýja fangelsið á að geta tekið við um 128 föngum þegar það er fullbyggt, með möguleika á stækkun til framtíðar. Í dag geta verið allt að 80 fangar á Litla-Hrauni í húsnæði sem komið er í viðhaldsþörf.

Áætlað er að byggja fangelsið upp á næstu fjórum árum og taka það í notkun á árinu 2028. Vonandi ganga þau áform eftir enda um stóra fjárfestingu að ræða fyrir samfélagið okkar. Fram kom á kynningunni að um væri að ræða nútíma öryggisfangelsi sem yrði byggt upp að norrænni fyrirmynd með áherslu á endurhæfingu og öryggi fanga og starfsfólks.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra kynnir uppbyggingu nýs fangelsis í Rauðahúsinu á Eyrarbakka.

Selfossbrú mun rísa

Það létti hjá mörgum þegar undirritun fór fram um byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá í golfskálanum á Selfossi. Verkefni sem hefur tafist óþarflega mikið en við fögnum því að loksins sé komið að framkvæmdum. Strax í framhaldinu tók Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og innviðaráðherra, fyrstu skóflustunguna að brúnni sem áætlað er að verði tilbúin árið 2028.

Brúin verður byggð af ÞG verktökum og hefur verið nefnd „Selfossbrúin“ af heimafólki. Finnst það nafn falla vel að verkefninu sem felur bæði í sér uppbyggingu brúarinnar og tengivega báðum megin árinnar.

Selfossbrúin verður mikil samgöngubót við Selfoss þar sem ófáir kannast við langar raðir eftir Suðurlandsvegi í dag til að komast yfir núverandi brú í austur- eða vesturátt. Íbúar og gestir sem vilja nýta þá fjölbreyttu þjónustu sem er á svæðinu, geta þá vonandi átt greiðari leið um gömlu brúnna.

Þessi verkefni ásamt fleirum á Suðurlandi eru mikil lyftistöng fyrir samfélagið og sýna þá miklu uppbyggingu sem er í gangi á svæðinu. Hvort sem um er að ræða samgöngur, orkumál, íbúðauppbyggingu eða aðra atvinnustarfsemi þá er hugur í Sunnlendingum að halda áfram og efla svæðið enn frekar.

Selfossbrú séð frá núverandi Ölfusárbrú.
Mynd: Örn Óskarsson.

Bragi Bjarnason,

bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg.

 

Nýjar fréttir