3.9 C
Selfoss

Ljósadagurinn á Laugarvatni

Vinsælast

Jólamarkaður Kvenfélags Laugdæla verður haldinn í Héraðsskólanum að Laugarvatni, laugardaginn 30. nóvember nk. og hefst kl. 14.

Hægt er panta söluborð hjá Þóru Þöll í síma 781-7554 eða á thorameldal@gmail.com.

Dagskrá ljósadagsins:

Kl. 14.00 – Jólamarkaður Kvenfélags Laugdæla opnar í Héraðsskólanum að Laugarvatni.

– Kvenfélag Laugdæla selur ilmandi vöfflur

– Blóðsykursmæling á vegum Lionsklúbbs Laugardals

– Lionsklúbburinn selur flotkerti

Kl. 17:00 – Bjarnalundur, ljósin á tré Lionsklúbbsins tendruð og barnakórinn syngur jólalög.

17:30 – Gengið niður að vatni í kertafleytingu.

– Fontana býður gestum og gangandi upp á heitt kakó og smákökur.

Ljósmynd: Antanas Šakinis Photography.

Hefðin sem skapar minningar er sterk

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir formaður Kvenfélags Laugdæla ræddi við Sabínu Steinunni Halldórsdóttur Laugvetning og þúsundþjalasmið í undirbúningi jólamarkaðarins og fékk hana til að líta aðeins til baka.

„Þær eru margar ljúfar minningarnar sem koma upp og ekki síður tilfinningar sem tengjast því að upplifa daginn“ segir Sabína Steinunn Halldórsdóttir sem bíður eftirvæntingafull eftir 30. nóvember til að fá að upplifa hann með syni sínum sem endranær.

„Ég hef líklega verið um tvítugt þegar ég upplifði sterkt að mig langaði til að skapa eitthvað og vera þátttakandi á markaðinum sjálfum. Eftir að hafa fylgst með sköpun annarra og handverki þorði ég loksins að vera þátttakandi. Ég bjó í Reykjavík á þessum tíma en hafði komist yfir fallega uppskrift að húfu, Línu langsokk húfu sem ég ákvað að útfæra enn frekar og hannaði „ponsjo“ í stíl.“

Sabína hófst handa við handavinnuna og nýtti nóvemberkvöldin í að sníða og hanna í stærðir og þakkaði fyrir að hafa kynnst Helgu sem kenndi henni og unglingunum á fatasaum í Héraðsskólanum að Laugarvatni. Kennslan hafði greinilega skilað sér því Sabína seldi upp lagerinn á jólamarkaði Kvenfélagsins og fékk fjölda pantana í kjölfarið.

Í dag er hefðin sterk en þegar jólamarkaðnum er lokið og flestir hafa bragðað á funheitri kvenfélagsvöfflu með rjóma tekur við falleg stund í Bjarnalundi. Þar hittast fjölskyldur og vinir ásamt gestum þar sem hópur barna í Bláskógaskóla á Laugarvatni syngur inn jólin og kveikt er á ljósum jólatrésins í lundinum. Eftir fallega og hátíðlega stund í Bjarnalundi er gengið í óskipulagðri skrúðgöngu niður að Laugarvatni og kertum fleytt í minningu aðstandenda, vina, gæludýra eða heimsins eins og hann leggur sig en hver og einn velur sér þann ásetning sem fylgir athöfninni. Fontana gefur gestum og gangandi heitt kakó og smákökur sem eru alltaf vel þegnar í kuldanum sem fylgir þessari góðu útiveru.

„Á þessu augnabliki í kertafleytingunni og í aðdraganda dagsins upplifir maður tilfinningar sem eru blanda af stolti og líklega monti, eins konar ást á dalnum okkar. Sérstaklega þegar hann mætir okkur í vetrarríki, stillu og sýnir sínar allra bestu hliðar. Fegurðin í logninu, krafturinn og náungakærleikurinn verður áþreifanlegur. Þessar tilfinningar minna mann líka á það liðna, það sem var og blanda af söknuði og ást. Þær tilfinningar staldra styttra við og það birtir fljótt þegar maður sér eftirvæntingu í litlum afleggjara, litla molanum sem sér fegurðina í litlu hlutunum og minnir á tilgang jólanna. Hátíð barnanna – því fyrir mér byrja jólin á Laugarvatni“ segir Sabína enn fremur.

Við bjóðum öll velkomin á Laugarvatn til að upplifa með okkur þennan góða dag og taka inn þessi fyrstu skref inn í aðventuna.

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir,

formaður Kvenfélags Laugdæla.

Nýjar fréttir