3.9 C
Selfoss

Hvaða ríkisstjórn tekur við eftir kosningar?

Stutta svarið við spurningunni í fyrirsögn þessa pistils er að Viðreisn sýnist ráða litarafti næstu ríkisstjórnar. Miðað við málatilbúnað flokksins á undanförnum misserum hlýtur að verða að gera ráð fyrir að Viðreisn hallist til vinstri og leitist við að mynda stjórn með Samfylkingu.

Ríkisstjórn af þessu tagi er ekki líkleg til að taka á þeim meginmálum sem við blasa. Hallalaus rekstur ríkissjóðs væri út af borðinu enda skatthækkanir aðalmál Samfylkingar til að fjármagna hvers kyns gæluverkefni. Ríkisstjórn af þessu tagi myndi leggja ofuráherslu á aðild að Evrópusambandinu sem er aðalmál, ef ekki eina mál Viðreisnar. Þetta mál rekur flokkurinn með upplýsingaóreiðu og fréttafalsanir að vopni til að fá kjósendur til að trúa að lækkun vaxta sé handan við hornið. Þetta mun ekki gerast enda tekur áratug eða meira að ná samningum við ESB og taka upp evruna. Umræða flokksins snýr því ekki að þeim vanda sem fjölmörg heimili og atvinnufyrirtæki glíma við vegna þeirra ofurvaxta sem riðið hafa yfir þjóðina. Þessir tveir flokkar mynda hryggjarstykkið í borgarstjórn Reykjavíkur sem með þéttingarstefnu og ófullnægjandi lóðaframboði hefur leitt af sér hærri hækkun á vísitölu neysluverðs og hærri vexti en ella hefði orðið.

Leiðin til að afstýra slysi af þessu tagi er að styðja Miðflokkinn með það fyrir augum að hann verði þátttakandi í borgaralegri ríkisstjórn með ábyrgð og skynsemi að leiðarljósi, hugsanlega með Sjálfstæðisflokknum. Slíkri ríkisstjórn væri treystandi til að ná tökum á ríkisfjármálum sem er forsenda lækkunar vaxta, sem tæki ESB-aðild ekki í mál, og sem taka myndi á hælisleitendamálum og loftslagsmálum án gegndarlauss fjárausturs með íslenskar aðstæður og hagsmuni í forgrunni.

Ólafur Ísleifsson,

3. sæti Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

Nýjar fréttir