1.1 C
Selfoss

Samfélagsstyrkjum Krónunnar úthlutað til ýmissa verkefna á Suðurlandi

Vinsælast

Krónan valdi nýlega þrettán verkefni víða um land sem hljóta samfélagsstyrk frá Krónunni í ár. Langflest þeirra eru staðsett utan höfuðborgarsvæðisins en eiga það öll sameiginlegt að stuðla að jákvæðum áhrifum á uppbyggingu í nærsamfélögunum á þeim þéttbýlisstöðum þar sem Krónan er til staðar. Verkefnin eiga það einnig sameiginlegt að ýta undir umhverfisvitund eða aukna lýðheilsu í formi áherslu á hollustu og/eða hreyfingu þar sem sjónum er einkum beint að ungu kynslóðinni.

Meðal þeirra sem hlutu styrk eru Körfuknattleiksfélag Selfoss fyrir sérstakt verkefni sem hefur að markmiði að efla þátttöku stúlkna og kvenna í íþróttinni hjá félaginu, og Skógræktarfélag Rangæinga fyrir bætta aðstöðu í Aldamótaskógi á Gaddstöðum. Þá hlaut Dansfélagið Allra þjóða kvikindi í Vík einnig samfélagsstyrk fyrir að styðja við bakið á fjölmenningarsamfélaginu sem þar hefur mótast á undanförnum árum.

Selfoss

Körfuknattleiksfélag Selfoss ákvað síðastliðið vor að endurvekja meistaraflokk kvenna og er afrakstur þeirrar vinnu meðal annars sá að nú mun efnilegt lið keppa í 1. deildinni í vetur. Körfuknattleiksíþróttin á Selfossi hefur ekki búið yfir kvennaliði í boltanum undanfarin tíu ár en karlaliðið byggir að langstærstu leyti á leikmönnum undir tvítugu á svæðinu. Verkefnið fram undan er að vekja frekari áhuga á körfunni meðal stúlkna og kvenna með frekari þátttöku hjá félaginu meðal annars með kaupum á búnaði, öflugri kynningu á næstu leikjum, æfingum og félagsstarfinu fram undan auk þess að skapa grundvöll fyrir áhugaverða fyrirlestra og fræðslu til handa iðkendum. Er meginverkefnið að mati stjórnenda Körfuknattleiksfélagsins að endurvakning meistaraflokks kvenna verði til þess að draga úr brottfalli stúlkna úr starfinu og veki áhuga fleiri á að ganga til liðs við félagið.

Rangárþing ytra

Á Hvolsvelli hlaut Skógræktarfélag Rangæinga styrk fyrir bætta aðstöðu í Aldamótaskógi á Gaddstöðum í Rangárþingi ytra, sem er fjölsóttur griðastaður bæði heimamanna og gesta víðsvegar að af landinu. Skógræktarfélagið hefur markvisst unnið að því að auka sem mest upplifun og ánægju gesta á sínum skógræktarsvæðum með því að bæta og byggja upp betri aðstöðu til að sem flestir geti notið heimsókna sinna sem best í skógunum.

Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, verkefnastjóri sjálfbærnimála hjá Krónunni, afhenti Þorsteini Jónssyni, ritara Skógræktarfélagsins, styrkinn í verslun Krónunnar á Hvolsvelli. Með þeim á myndinni er Guðmundur Jónsson verslunarstjóri.
Ljósmynd: Aðsend.

Vík í Mýrdal

Dansfélagið Allra þjóða kvikindi í Vík í Mýrdal hlaut samfélagsstyrk fyrir verkefni sitt að styðja sem best við samfélagsuppbyggingu í Mýrdalshreppi og nágrannasamfélögum með því að bjóða upp í dans og beina á sama tíma kastljósinu að ríkidæmi þeirra ólíku menningarheima sem einkenna Víkursamfélagið um þessar mundir. Jafnframt er markmið verkefnis Dansfélagsins að varpa skýrri sýn á samfélagið á staðnum sem gjöfult og innihaldsríkt fjölmenningarsamfélag.

F.v. Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, verkefnastjóri sjálfbærnimála hjá Krónunni, og Laura Pasztor, verslunarstjóri Krónunnar í Vík.
Ljósmynd: Aðsend.

Nýjar fréttir