1.1 C
Selfoss

Er ímynd Ölfuss græn eða grá?

Ábyrg og sjálfbær nýting auðlinda er hornsteinn í stefnumótun og framtíðarsýn okkar í Ölfusi og við höfum allt til að bera til að verða leiðandi sveitarfélag í sjálfbærri þróun.

Markvisst hefur verið unnið að því að byggja upp ímynd sveitarfélagsins til að laða að spennandi nýsköpun og skapa tækifæri í grænum iðnaði.

Að byggja gríðarstóra og orkufreka mölunarverksmiðju inn í mitt sveitarfélagið, með tilheyrandi umhverfisáhrifum, gengur þvert á þá vegferð og varpar dimmum skugga á ímynd Ölfuss.

Stóraukin losun – þvert á markmið

Talsmenn mölunarverksmiðju hafa mikið rætt um möguleika móbergsins okkar til að draga úr kolefnisfótspori í sementsframleiðslu. Vandamálið er þó að sá „sparnaður” er alfarið á kostnað Ölfuss. Eitt það fyrsta sem fýkur út um gluggann eru markmið Sóknaráætlunar Suðurlands um að draga úr losun koltvísýrings um 10% fyrir 2025. Með mölunarverksmiðju horfum við fram á að stórauka losun í stað samdráttar. Allt þetta reiknast í okkar loftslagsbókhaldi – ávinningurinn fer til stóriðju í Evrópu og þýskra hluthafa.

Mölunarverksmiðja er orkufrek og umhverfiseyðandi stóriðja, sem tekur um helming af framleiðslu Nesjavallavirkjunar í rekstri. Á sama tíma er umræða í samfélaginu um að ekki sé nóg til af rafmagni fyrir orkuskiptin né græna atvinnustarfsemi. Er það skref áfram eða aftur á bak?

Sjálfbærri ímynd varpað fyrir róða

Hingað til hefur áhersla verið lögð á að byggja ferðaþjónustu á Suðurlandi á sjálfbæru samfélagi og stórauka uppbyggingu í grænni og sjálfbærri matvælaframleiðslu. Með mölunarverksmiðju mun ímynd sveitarfélagsins Ölfuss bíða hnekki og hafa neikvæð áhrif á hag og vöxt mikilvægra atvinnugreina á svæðinu til lengri tíma litið. Viljum við vera þekkt sem mölunar- og námubær, sem grefur niður fjöll og rífur upp hrygningarsvæði okkar eigin nytjastofna?

Í Orku- og auðlindastefnu Ölfuss er lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda. Með því að fylgja okkar eigin stefnu og hafna grárri stóriðju getum við tryggt að ímynd okkar verði áfram tengd framþróun og sjálfbærni. Slík ímynd dregur að jákvæðri atvinnuþróun og hjálpar okkur til við að móta og efla það samfélag sem við viljum búa í.

Segjum nei við mölunarverksmiðju.

 

Hjördís Erlingsdóttir,

Íbúi í Ölfusi.

Nýjar fréttir