Umræða um fyrirhugaða uppbyggingu Heidelberg í Þorlákshöfn hefur verið áberandi undanfarnar vikur. Ekki eru allir íbúar Þorlákshafnar hlynntir starfseminni og hefur verið boðað til íbúakosningar vegna málsins. Hún fer fram samhliða Alþingiskosningunum og mun standa í tvær vikur, frá 25. nóvember til 9. desember.
Þorsteinn Víglundsson, talsmaður Heidelberg á Íslandi, segir íbúa ekki þurfa að hafa áhyggjur af verksmiðjunni.
Móberg umhverfisvænn kostur
Í Heidelberg-verksmiðjunni mun fara fram mölun á móbergi. Það er þurrkað og malað niður í sementsfínleika. Móbergið er mun umhverfisvænna en hefðbundið sement og lækkar kolefnisfótspor umtalsvert. Móberg er frá náttúrunnar hendi brennt efni. Það verður til þegar kvika kemst í snertingu við vatn. Þá sundrast efnið og verður glerkennt og skapar efnafræðilega eiginleika. Það skilar styrk á við venjulegt sement þó að það taki örlítið lengri tíma. Munurinn er kolefnisfótspor sements. Það er talið ábyrgt fyrir um 8% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Móberg er hins vegar án kolefnisfótspors fyrir utan það sem kom þegar gaus á sínum tíma. Notkun efnisins veldur ekki losun gróðurhúsalofttegunda.
Móberg er ekki algeng bergtegund í heiminum en hún er mjög algeng á Íslandi, ein sú algengasta. „Þetta er skemmtilegt tækifæri til þess að bæði skapa fram mjög virðisaukandi framleiðslu úr íslensku jarðefni en um leið líka að hjálpa til við að minnka gróðurhúsalofttegundir á heimsvísu,“ segir Þorsteinn Víglundsson í samtali við Dagskrána.
„Byggingariðnaður er almennt að leita leiða til þess að lækka kolefnisfótsporið. Á heimsvísu er kolefnisfótspor bygginga mjög hátt. Bæði þá á rekstrartíma bygginganna og orkunotkunar þeirra, en ekki síst á byggingartíma og þar hefur til dæmis ekki verið talið raunhæft að skipta út steinsteypu fyrir önnur byggingarefni. Við getum aldrei skipt út steinsteypu fyrir timbur að fullu. Steinsteypan og sementið hefur verið þetta staðbundna byggingarefni sem gengur alls staðar í heiminum. Við þekkjum það vel hér að við eigum ekki skóga til þess að byggja úr og það á náttúrlega við víða annars staðar. Þannig að það er svona meginástæðan fyrir því að við erum að horfa til þessarar framleiðslu,“ segir Þorsteinn.
Áætlað er að flytja móbergssementið út til Skandinavíu og Norður-Evrópu.
Þorlákshöfn hentug staðsetning
Aðspurður af hverju hann vilji að Þorlákshöfn verði staðurinn fyrir þessa starfsemi segir hann það mjög hentuga staðsetningu.
„Þorlákshöfn býður í fyrsta lagi upp á möguleika til hafnar sem er mjög mikilvægur þáttur. Framleiðsla sem þessi þarf að fara fram við höfn vegna flutninga á fullunnu efni sem er nauðsynlegt til þess að geta skipað því beint út í skip. Það eru stórir móbergsstapar hérna hjá Þrengslunum. Þar er hugsunin að nýta þá tvö svæði sem þegar hafa verið skilgreind sem námusvæði, það er að segja litla Sandfell og Lambafell. Hugmyndin er að vinna efni úr sjó í Landeyjahöfn, dæla því upp þar og dæla því á land við verksmiðjuna til þess að draga úr landflutningum efnis. Þannig að við gerum ráð fyrir að að minnsta kosti tveir þriðju hlutar efnisins kæmu frá Landeyjum og afgangurinn héðan úr Þrengslunum. Svo liggur Þorlákshöfn vel að alþjóðlegum skipaflutningum. Þannig að þetta er hagstæð staðsetning gagnvart alþjóðlegum flutningum.“
Óánægja meðal íbúa
Íbúar hafa margir lýst yfir óánægju sinni með þessa verksmiðju. Þorsteinn segir að tekið sé tillit til þeirra.
„Við höfum frá upphafi lagt okkur mjög fram um að eiga gott samstarf bæði beint við íbúana sjálfa og sveitarfélagið hér og aðra atvinnustarfsemi á svæðinu. Við höfum átt ítrekaða samráðsfundi við íbúa með íbúafundum sem við byrjuðum bara mjög fljótlega í undirbúningsferli verkefnisins að halda. Ég held að við höfum haldið fimm íbúafundi fram til þessa og stefnum á það að halda þann sjötta 27. nóvember, rétt fyrir kjördag í Alþingiskosningum. Þar höfum við verið að hlusta eftir þeim áhyggjum sem fram hafa komið.“
Hann segir að upphaflega hugmyndin hafi verið að hafa verksmiðjuna alveg ofan í bænum en að leitað hafi verið annarra leiða eftir að óánægja íbúa kom í ljós.
„Þá fórum við að leita leiða til þess að breyta því í grundvallaratriðum. Við ákváðum þá að fara frekar í að færa verkefnið út á iðnaðarsvæðið vestan megin við bæinn og byggja þá nýja höfn. Engir flutningar þyrftu að fara í gegnum bæinn og framleiðslan væri ekki ofan í bænum eins og upprunalega var gengið út frá. Við fórum að leita leiða til þess að draga jafnframt úr vægi landflutninganna.“
Verða ekki vör við hljóðmengun
Þorsteinn segist skilja áhyggjur íbúa af umfangsmiklum landflutningum.
„Þetta eru stór flutningatæki og eðlilegt að fólk hafi áhyggjur. Við höfum jafnframt skoðað mjög vandlega hvort að það séu einhverjir aðrir þættir sem að íbúar þyrftu að hafa áhyggjur af og það er alveg ljóst að það yrði aldrei vart við einhverja hljóðmengun frá verksmiðjunni hér. Við höfum látið mæla hljóðstyrk á svæðinu og stærsti hljóðgjafinn hér á svæðinu er einfaldlega sjórinn við ströndina og bara veður almennt. Hljóðstig verksmiðjunnar við lóðarmörk samsvarar þeim kröfum sem gerðar væru til iðnaðarframleiðslu í íbúðabyggð að næturlagi. Þannig að við teljum að það verði ekkert vandamál hér.“
Hann tekur einnig fram að ekkert ryk muni koma frá verksmiðjunni.
„Öll framleiðslan fer fram í lokuðum kerfum alveg frá því að hráefni berst til verksmiðjunnar þangað til að því er skipað út í skip. Síðan höfðu laxeldin ákveðnar áhyggjur af mögulegum titringi sem að við höfum látið mæla og er óverulegur. Á lóðamörkum er hann minni en til dæmis vöruflutningabíll gefur frá sér. Þannig að það er ekki eitthvað sem við teljum að hafi nein áhrif á nágranna okkar sem að er mjög mikilvægt, að við séum ekki að hafa nein truflandi áhrif á aðra atvinnustarfsemi.“
Þorsteinn segir að það skapi tækifæri fyrir allt sveitarfélagið að byggja nýja höfn.
„Sveitarfélagið myndi eignast höfnina og verður hún öllum opin til notkunar. Þar er margvísleg starfsemi sem fyrirhuguð verður. Við höfum lagt okkur fram við það annars vegar að mæta þeim áhyggjum sem aðilar hefðu af starfseminni með því að sýna fram á með ítarlegum rannsóknum að það séu engar áhyggjur að hafa. Við teljum spennandi tækifæri fólgin í samstarfi við aðra aðila til framtíðaruppbyggingar hér.“
Íbúar hafa lokaorðið
Aðspurður að því hvað verði gert kjósi meirihluti íbúa á móti verksmiðjunni segir Þorsteinn þessa staðsetningu þá vera út úr myndinni.
„Bæjaryfirvöld hafa alveg verið skýr með það. Íbúakosning er bindandi. Niðurstaða þeirra ræður. Þannig að þá væri staðsetning hér út í myndinni. Þá myndum við væntanlega þurfa að leita annarrar staðsetningar fyrir þessa framleiðslu. Við höfum auðvitað horft til þess að þetta teljum við vera mjög góða staðsetningu. Við teljum að við höfum svarað þeim áhyggjum sem fram hafa komið í umræðunni og höfum tekið ábendingum frá íbúum mjög alvarlega. Við erum ekki að vinna neinar aðrar sviðsmyndir um staðsetningu fyrr en niðurstaða liggur fyrir hér. En það er alveg ljóst að íbúar ráða, þeir hafa lokaorðið um það hvort að þessi framleiðsla verði staðsett hér eða einhvers staðar allt annars staðar,“ tekur Þorsteinn fram.
Framleiðsla hefst 2028 eða 2029
Ef íbúar samþykkja starfsemina fer ferli í gang.
„Við erum að ljúka umhverfismati núna vegna efnisvinnslu við Landeyjar. Við gerum ekki ráð fyrir því að leyfisveitingaferli eða annað þar verði lokið fyrr en einhvern tímann á næsta ári. Að því gefnu auðvitað að verkefnið verði samþykkt og allt gangi, þá væri endanleg ákvörðun um byggingu tekin á miðju næsta ári. Við gerum ráð fyrir að það tæki um það bil þrjú ár að byggja verksmiðju og höfn þannig að hún gæti verið að hefja framleiðslu hér einhvern tímann 2028 eða 2029,“ telur Þorsteinn.
„Verkefnið finnst mér vera mjög spennandi og það er búið að vera mjög gaman að koma að undirbúningi og nú bíðum við bara spennt að sjá hvernig þetta fer,“ segir Þorsteinn að lokum.