2.8 C
Selfoss

Fjárhagsáætlun Svf. Árborgar 2025 – Án álags á útsvar

Vinsælast

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2025 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn miðvikudaginn 20. nóvember. Útsvarsprósentan lækkuð í 14,97% og álagið afnumið.

Lykilpunktar

Álagið tekið af, útsvarsprósentan verður 14,97%, lækkar um 1,474%.

Jákvæð rekstrarniðurstaða 105 milljónir í A- og B-hluta án álags á útsvar.

Veltufé frá rekstri er 2,1 milljarður.

Fasteignaskattur hækkar en vatns- og fráveitugjald lækkar.

Gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs lækka fyrir tvískipta spartunnu.

Skuldaviðmið Árborgar lækkar og verður 126,5% árið 2025.

Hóflegar gjaldskrárhækkanir í takti við kjarasamninga.

Stöðugildum heldur áfram að fækka milli ára.

Verjum þjónustu við börn og ungmenni. Vinnuskóli fyrir 8. bekk og 17+ hefst aftur sumarið 2025.

Dagdvölin Árblik opin yfir sumartímann.

Viðbygging við leikskólann Jötunheima, kennslusundlaug og hönnun 3. áfanga Stekkjaskóla.

Endurnýjun Eyrargötu á Eyrarbakka, hreinsistöðin og rannsóknarboranir Selfossveitna.

Í fjárhagsáætlun 2025 er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar, A- og B-hluta, verði jákvæð sem nemur 105 milljónum og að EBITDA verði jákvæð um 2.853 milljónir. Veltufé frá rekstri er áætlað 2.092 milljónir í samstæðu sveitarfélagsins, framlegðarhlutfallið verði 13,9 og skuldaviðmiðið komið í 126,5%.

„Þetta er jákvæð niðurstaða og umfram áætlanir og markmið aðgerðaráætlunar „Brú til betri vegar”. Reksturinn verður traustari og sveitarfélagið er nú vel undir 150% skuldaviðmiði og þriggja ára rekstrarjöfnuður að verða jákvæður. Þetta veitir bæjarstjórn tækifæri til að lækka álög á íbúa þegar fram líða stundir, og fyrsta skrefið í þá átt er að afnema sérstakt álag á útsvar á árinu 2025 sem hefur verið í gildi árið 2024. Verkefninu er þó ekki lokið en við munum standa vörð um grunnþjónustu við íbúa. Áfram verður leitað leiða til hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins en við gleðjumst yfir áfanganum,” segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar.

Ábyrgur rekstur

Jákvæð útkomuspá ársins 2024 og áætlun næstu ára er umfram markmið aðgerðaráætlunar „Brú til betri vegar” sem var sett fram á grundvelli samkomulags um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit á grundvelli 2. mgr. 83. gr. laga nr. 138/2011 milli Sveitarfélagsins Árborgar og innviðaráðherra, dags. 27. mars 2023. Rekstur sveitarfélagsins verður traustari og er sveitarfélagið vel undir 150% skuldaviðmiði. Árið 2025 verður þriggja ára rekstrarjöfnuður einnig jákvæður.

Þetta er mikil breyting sem hefur náðst með erfiðum ákvörðunum og dugnaði, elju og samstarfi starfsmanna, kjörinna fulltrúa, íbúa og ráðgjafa. Þakkir til allra sem hafa lagt sitt af mörkum.


Rekstrarniðurstaða Árborgar fyrir A- og B-hluta.

Góð flokkun úrgangs að skila sér

Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði hækkar í 0,48% af fasteignamati og vatns- og fráveitugjald lækkar, að hluta til á móti fasteignaskatti, í 0,102% fyrir eignir í A-flokki en gjöld á B- og C-flokk haldast óbreytt. Lóðarleiga helst óbreytt. Gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs lækka hjá þeim sem eru með tvískipta tunnu og hækka lítillega eða standa í stað í öðrum flokkum. Íbúar fá sérstakt hrós fyrir góða flokkun úrgangs sem er að skila sér í auknum tekjum frá Úrvinnslusjóði og er því hægt að lækka þá flokka.

Þessi breyting innan fasteignagjaldanna skilar auknu fjármagni í A-hluta sveitarfélagsins sem stendur undir grunnþjónustu við okkur íbúa og er ástæða þess að hægt er að afnema álag á útsvar. Það má áætla að hækkun fasteignagjalda hjá fasteignaeigendum sé að meðaltali um 5-14% milli ára. Skýrist það af mismunandi hækkun fasteignamats milli svæða. Eyrarbakki og Stokkseyri hækka mest þetta árið.

Aðrar gjaldskrár sveitarfélagsins hækka almennt um 3,5% sem er í takti við verðlagsþróun.

Fjárfest í innviðum til framtíðar

Umfangsmiklar framkvæmdir eru áætlaðar á næstu árum sem bæði er ætlað að tryggja innviði undir þjónustu sveitarfélagsins við íbúa og viðhalda eignum. Áætlað er að framkvæma fyrir rúmlega tvo milljarða á næsta ári og hefur eigna- og veitunefnd ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins unnið að forgangsröðun til að fjármagnið nýtist sem best.

Helstu framkvæmdir næsta árs eru tengdar viðbyggingu við leikskólann Jötunheima, uppbyggingu nýrrar kennslusundlaugar við Sundhöll Selfoss, endurnýjun Eyrargötu á Eyrarbakka, gatnagerð á Stokkseyri, skólalóð Vallaskóla og áframhaldandi framkvæmdum á hreinsistöðinni í Geitanesi. Hjá veitunum verður byrjað á nýrri dælustöð og geymi ásamt frekari rannsóknum og virkjunum hjá Selfossveitum.

Næsti áfangi Stekkjaskóla verður tekinn í notkun í upphafi árs og í framhaldinu hafin hönnun á þriðja áfanga sem mun hýsa tónlistarskóla og íþróttamannvirki. Áfram er sett fjármagn í viðhald stofnana en með auknu svigrúmi á næstu árum verður hægt að auka framlög í samræmi við þörf til þeirra verkefna.

Aukum skilvirkni og þjónustu

Sveitarfélagið Árborg vinnur áfram að aukinni stafrænni vegferð með það að markmiði að bæta þjónustu og auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar. Áætlað er að stíga stór skref á næsta ári m.a. með nýrri heimasíðu, innleiðingu á nýju skjalakerfi og notkun gervigreindar. Aðgerðir sem eiga bæði að nýtast starfsmönnum við vinnu og veita íbúum betri þjónustu.

Í fjárhagsáætlun vill bæjarstjórn hlúa að framtíðinni og leggja áherslu á bætta þjónustu við börn, ungmenni og eldri borgara. Á næsta ári verður frístundastyrkurinn áfram fyrir börn á aldrinum 4-17 ára, 8. bekk bætt við vinnuskólann sem verður þá fyrir 8.-10. bekk ásamt úrræðum fyrir 17+ hópinn. Þar verður sérstaklega horft til sumarvinnu fyrir ungmenni með fötlun. Auk þess verður unnið að enn frekari forvörnum í samvinnu við Öruggara Suðurland.

Unnið verður að aðlögun þjónustu við aldraða m.a. í gegnum verkefnið „Gott að eldast“. Markmiðið er að þjónustan nýtist betur fyrir þau sem þurfa. Dagdvölin Árblik verður aftur opin yfir sumartímann sem er fagnaðarefni og heilsuefling eldri borgara á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri verður áfram.

Nýtum tækifærin til að ná betri árangri

Áskoranirnar fram undan eru vissulega til staðar. Vextir og verðbólga hafa áhrif á allan rekstur í dag og vonandi halda báðir þættir áfram að lækka næstu mánuði. Kjarasamningsviðræður eru í gangi hjá stórum hópi starfsmanna sveitarfélaga sem geta einnig haft mikil áhrif á áætlanir.

Tækifærin hér í Árborg eru sannarlega til staðar. Sveitarfélagið er með spennandi svæði til úthlutunar og byggingaráform íbúða- og atvinnuhúsnæðis eru í fullum gangi og í samræmi við þá vaxandi þörf á landsvísu. Það er trú á uppbyggingu í sveitarfélaginu enda Árborg gott samfélag með öfluga þjónustu. Þetta staðfestist nær daglega þar sem íbúum heldur áfram að fjölga þrátt fyrir krefjandi aðstæður sveitarfélagsins undanfarin ár.

Það er ánægjulegt að samstillt átak kjörinna fulltrúa, starfsmanna, íbúa og annarra sem hafa komið að sé að skila þessum árangri. Um leið er mikilvægt að halda fókus á stefnunni, við erum ekki komin í mark, aðlaga aðgerðir í takti við stöðuna og nýta tækifærin til að ná betri árangri fyrir Árborg okkar allra.

Skuldaviðmið og –hlutfall Sveitarfélagsins Árborgar.

Nýjar fréttir