-8.5 C
Selfoss

Leynivinavika í Menntaskólanum að Laugarvatni

Vinsælast

Sælir Sunnlendingar.

Það ríkti stórfengleg spenna hjá nemendum þegar hin árlega leynivinavika var haldin af nemendaráðinu Mími í Menntaskólanum að Laugarvatni í síðustu viku. Leynivinavika gengur út á það að nemendur draga nafn einhvers í skólanum sem gerist þá leynivinur og hefur sá nemandi alla vikuna í að gleðja leynivin sinn á einn eða annan hátt. Sá sem gerist leynivinur þinn má alls ekki vita af því að þú ert með hann. Uppsetningin var þannig gerð að nemendur þriðja bekkjar drægju nafn einhvers í öðrum bekk, nemendur í öðrum bekk drægju einhvern í fyrsta bekk og nemendur í fyrsta bekk drægju einhvern úr þriðja bekk. Þó að mörgum hafi fundist gaman að fara út í búð að splæsa í litlar gjafir handa leynivini bar þeim þess alls engin skylda. Margir tóku það að sér að syngja fyrir leynivin, aðrir létu vini fara með frumsamið ljóð fyrir leynivin sinn og sumir skrifuðu einfaldlega bara fallegt bréf til að kæta og gleðja. Margt smátt gerir eitt stórt. Í lok vikunnar á föstudegi var svo náttfatadagur þar sem ýmsir nemendur og starfsmenn klæddust kósýgöllunum í skólanum. Um kvöldið var fagnað með balli. Á meðan ballinu stendur ganga rósir á milli hvers og eins til að tilkynna hver var með hvern í leynivin. Sá sem gaf þér rós var með þig í leynivin og þannig gengu rósirnar á milli. Þetta var svo sannarlega viðburðarík vika og nemendur munu seint gleyma leynivinavikunni 2024.

Ljósmynd: Aðsend.

Sæbjörg Erla Gunnarsdóttir,

ritnefndarformaður.

Iris Dröfn Rafnsdóttir,

vef- og markaðsformaður.

Nýjar fréttir