-1.4 C
Selfoss

Anna Metta setti Íslandsmet í tveimur flokkum í þrístökki

Vinsælast

Keppendur Frjálsíþróttadeildar Selfoss tóku þátt í Silfurleikum ÍR laugardaginn 16. nóvember. Allir þátttakendur 11 ára og yngri fengu þátttökuverðlaun á mótinu, í flokki 12 ára fengu 10 stigahæstu verðlaun og veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í flokkum 13-17 ára. Keppendur deildarinnar stóðu sig frábærlega en hæst bar Íslandsmet Önnu Mettu Óskarsdóttir í þrístökki í flokkum 14 og 15 ára og HSK met Hjálmars Vilhelms Rúnarssonar í kúluvarpi.

Anna Metta Óskarsdóttir stórbætti sig í þrístökki þegar hún stökk 11,46 m og bætti tvö Íslandsmet í þrístökki, bæði í flokki 14 og 15 ára. Íslandsmetið í 14 ára flokki var 11,38 m í eigu Þórdísar Evu Steinsdóttir og 15 ára metið var 11,43 m í eigu Örnu Stefaníu Guðmundsdóttur. Frábær árangur hjá þessari stórefnilegu íþróttakonu en að sjálfsögðu vann hún til gullverðlauna í þrístökkinu. Stökkið er jafnframt þriðja lengsta þrístökk ársins í kvennaflokki. Hún vann einnig til gullverðlauna þegar hún vippaði sér yfir 1,58 m í hástökki og þegar hún kom fyrst í mark í 800 m hlaupi á tímanum 2:52,80 mín. Hún nældi sér einnig í þrenn silfurverðlaun á mótinu. Hún hljóp 60 m á 8,36 sek, 200 m hljóp hún á 28,20 sek og 60 m grindahlaupið fór hún á 10,15 sek. Að lokum kastaði hún kúlunni til bronsverðlauna þegar hún kastaði henni 9,20 m.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson stóð sig frábærlega í flokki 16-17 ára. Hann krækti sér í gullverðlaun í þremur greinum. Í kúluvarpi stórbætti hann HSK-met Arnar Davíðssonar í flokki 16-17 ára þegar hann kastaði kúlunni 15,18 m en eldra metið var 14,35 m. Hástökkið sigraði hann þegar hann bætti sig með 1,90 m stökki sem er jafnframt fjórða hæsta stökk ársins í karlaflokki. Í 60 m hlaupi kom hann síðan fyrstur í mark á tímanum 7,43 sek sem er bæting hjá kappanum.

Hugrún Birna Hjaltadóttir sigraði í flokki 16-17 ára í grindahlaupi á tímanum 11,01 sek, hún bætti sig í 200 m með tímann 28,84 sek og vann til silfurverðlauna og að lokum kom hún þriðja í mark í 60 m hlaupi á tímanum 8,76 sek. Arndís Eva Vigfúsdóttir sigraði í kúluvarpi í flokki 15 ára með 10,86 m löngu kasti og Adda Sóley Sæland sigraði í kúluvarpi í flokki 14 ára þegar hún varpaði kúlunni 9,46 m. Þær stöllur Arna Hrönn Grétarsdóttir og Dagmar Sif Morthens urðu jafnar í 1-3 sæti í hástökki í flokki 15 ára þegar þær vippuðu sér báðar yfir 1,41 m. Elísabet Freyja Elvarsdóttir bætti sig í kúluvarpi í flokki 13 ára þegar hún varpaði kúlunni 9,62 m og vann til silfurverðlauna. Kristján Kári Ólafsson varpaði kúlunni 11,30 m í flokki 16-17 ára og vann til silfurverðlauna. Þórhildur Salka Jónsdóttir stökk 8,90 m í þrístökki í flokki 12 ára og uppskar bronsverðlaun, sömu verðlaun og Þórhildur Sara Jónasdóttir vann til í 800 m hlaupi í flokki 16-17 ára þegar hún kom í mark á tímanum 2:34, 03 mín.

Nýjar fréttir