-4.5 C
Selfoss

,,Af því að ég veit að ég get það”

Vinsælast

Á aðalfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) sem haldinn var miðvikudaginn 13. nóvember, var Noelinie Namayanja sem stundaði nám hjá Fræðslunetinu valin fyrirmynd í námi fullorðinna ásamt Sigurði K. Guðmundssyni sem stundaði nám hjá Mími. Viðurkenningin er veitt árlega þeim einstaklingum sem hafa breytt stöðu sinni eftir þátttöku í úrræðum FA, sýnt framúrskarandi árangur, frumkvæði, kjark og náð að yfirstíga ýmiss konar hindranir.

Noelinie vildi læra meira

Noelinie kom til Íslands árið 2013 og fór þá að vinna við umönnun á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík. Síðar flutti hún í Landeyjarnar og fór að vinna í skólaeldhúsinu í Hvolsskóla. Þar hitti hún Steinunni verkefnastjóra Fræðslunetsins sem kynnti fyrir henni íslenskunámskeið. Noelinie skráði sig í Íslensku II sem var töluverð áskorun fyrir hana, ekki síst þar sem kennarinn var pólskur og stundum fóru útskýringar fram á pólsku.

Eftir þessa prófraun fann Noelinie að hún vildi læra meira. Hún bókaði viðtal hjá Eydísi Kötlu náms- og starfsráðgjafa Fræðslunetsins sem kynnti fyrir henni hvaða nám væri í boði hjá Fræðslunetinu. Haustið 2018 skráði Noelinie sig í Menntastoðir og Félagsliðabrú. Vorið 2019 lauk Noeline 27 einingum í Menntastoðum og haustið 2020 útskrifaðist hún sem félagsliði. Samhliða náminu vann hún á hjúkrunarheimilunum Klausturhólum og Seltjörn.

Veturinn 2019 þegar Noelinie var að vinna á Seltjörn var margt starfsfólk í einhvers konar námi og þar kviknaði áhugi hennar á að fara í sjúkraliðanám. Hún skráði sig í FB og útskrifaðist sem sjúkraliði vorið 2022.

Að trúa á eigin getu

Í dag er Noelinie að vinna á Grensás endurhæfingardeild Landspítalans og hefur samhliða sinni vinnu getað tekið fjöldamörg styttri námskeið fyrir sjúkraliða. Markmið hennar er að læra öldrunarhjúkrun. Í þakkarorðum Noelinie sagði hún ástæðu þess að hún ætlaði að fara í það nám vera: „Af því að ég veit ég get það.“

Noelinie hefur sannarlega sýnt framfarir í námi, haldið ótrauð áfram og fylgt þeim markmiðum sem hún setti sér. Hún hefur látið drauma sína rætast, lært íslensku, farið í nám, hefur náð sér í starfsréttindi og er nú komin á þann stað sem hún er á í dag. Hún hefur sýnt mikla seiglu og er því verðugur fulltrúi sem fyrirmynd í námi fullorðinna.

Nýjar fréttir