-8.9 C
Selfoss

Heimavist óvissunnar

Vinsælast

Þegar ég var 16 ára flutti ég að heiman til þess að sækja mér menntun við Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu). Ég bjó það langt frá skólanum að ég hafði ekki þann möguleika að taka strætó frá Hvolsvelli eins og margir sem búsettir eru í Rangárþingi eystra. Til allrar hamingju fyrir mig og foreldra mína var heimavist á Selfossi sem bauð upp á íbúðir á viðráðanlegu verði. Svo þegar ég útskrifaðist árið 2016 lauk einnig sögu þeirrar heimavistar og hafa þau mál verið í lausu lofti síðan þá.

Fjölbrautaskóli sem á að taka á móti nemendum sem búa oft í hundruð kílómetra fjarlægð verður að vera tilbúinn til þess að taka á móti ungmennum sem eru að sækja sér menntun. Að flytja að heiman 16 ára er stórt skref fyrir nemandann og einnig foreldra. Þau vilja síður senda barnið sitt í óvissuna. Fjölbrautaskóli Suðurlands myndi þjóna hlutverki sínu margfalt betur með varanlegu úrræði fyrir nemendur sem koma langt að.

Árið 2020 náðust samningar á milli ríkisins og aðila um leigu á húsnæði, sem er jákvætt, en ekki er um að ræða varanlega lausn þar sem sá samningur rennur út um áramótin. Á meðan það er ekki komin varanleg lausn á húsnæði heimavistar þá er mikilvægt að halda í samninga við núverandi aðila.

Heimavist myndi auka möguleika fyrir ungmenni hérna á Suðurlandi að sækja sér nám, án þess að þurfa reiða sig á leigumarkaðinn eða skyldmenni. Menntaskólinn á Laugarvatni er með frábæra heimavist þar sem ungmenni hafa sama stað og ákveðið öryggisnet. Félagslegi hlutinn af heimavist er líka ómetanlegur. Ungmennin mynda eina sterka heild og eignast vini til framtíðar. Minningarnar mínar af heimavistinni eru ómetanlegar.

Ingveldur Anna Sigurðardóttir,

3. sæti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Nýjar fréttir