3.4 C
Selfoss

Fischersetri afhentur viðurkenningargripur til varðveislu

Vinsælast

Alþjóða skáksambandið (FIDE) fagnaði 100 ára afmæli sínu í september sl. Af því tilefni leit sambandið yfir farinn veg og veitti ýmsar viðurkenningar. Heimsmeistaraeinvígið 1972, “Einvígi aldarinnar,milli Bobby Fischer og Boris Spasskí var útnefnt Minnisstæðasti skákviðburðurinn í 100 ára sögu FIDE. Við þetta tækifæri tók Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands (SÍ), við viðurkenningargrip fyrir hönd íslenskrar skákhreyfingar, en SÍ var framkvæmdaraðili þessa merka viðburðar.

Föstudaginn 8. nóvember sl. afhenti Guðmundur G. Þórarinsson, forseti SÍ í aðdraganda einvígisins og meðan á því stóð, viðurkenningargripinn Fischersetri til varðveislu. Aldís Sigfúsdóttir forstöðumaður Fischersetursins tók við honum.

Viðurkenningargripurinn.
Ljósmynd: DFS.is/EHJ.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, flutti ávarp á viðburðinum. Hún talaði um hversu stórt einvígið hefði verið og að það stæði til að gera kvikmynd um það. Handritshöfundur myndarinnar er sá sami og gerði kvikmyndina um Whitney Houston. Hann gerir handritið í samstarfi við Sigurjón Sighvatsson.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Ljósmynd: DFS.is/EHJ.

Lilja sagði einvígið hafa mikil áhrif á Ísland. Það hafi verið mikið hugrekki að halda viðburðinn hér á landi og hugarfarið hafi skipt miklu máli. Hún sagði að það þyrfti að miðla þessu hugarfari til unga fólksins, að hafa ekki of miklar áhyggjur og berjast fyrir því sem við trúum á.

Guðmundur G. Þórarinsson tók einnig til máls ásamt Kjartani Björnssyni.

Guðmundur G. Þórarinsson.
Ljósmynd: DFS.is/EHJ.

Í lok athafnar var tónlistaratriði á vegum Bakkastofu á Eyrarbakka. Valgeir Guðjónsson og Joel Christopher Durksen tóku nokkur vel valin lög.

Valgeir Guðjónsson og Joel Christopher Durksen tóku nokkur vel valin lög.
Ljósmynd: DFS.is/EHJ.

Nýjar fréttir