-6.6 C
Selfoss

Hugleiðingar um Hveragerði

Vinsælast

Þegar staldrað er við útsýnispallinn í Kömbum í dag og litið til Hveragerðis, rifjast upp minningar um þorpið fyrir mörgum áratugum. Gamli Kambavegurinn er nú gróinn og smám saman að breytast í göngustíg eða reiðstíg. Í Hveragerði hafði myndast lítið þorp með mörgum misstórum gróðurhúsum og íbúðarhúsum. Þjóðvegurinn lá um Austurmörk, gufustrókar stigu víða til himins en lítið var um trjágróður. Ef horft var lengra austur blasti gamli Garðyrkjuskólinn við, svo og sundlaugin stolt Hvergerðinga. Reykjafjall rammaði síðan inn náttúruna til austurs, Hamarinn til norðurs, og Varmá liðaðist niður dalinn. Þorpið byggðist upp á þessum stað fyrst og fremst vegna jarðhitans.

Hveragerði í sveitarfélaginu Ölfus varð sjálfstæður hreppur árið 1946 úr jörðunum Vorsabæ og Öxnalæk. Ölfus var þá landbúnaðarsamfélag, en í Hveragerði var að myndast þorp með allt aðrar þarfir. Því skildu leiðir. Fyrirferðarmestir í Hveragerði voru garðyrkjubændur og listamenn. Garðyrkjumennirnir framleiddu blóm eða grænmeti, en listamennirnir voru ljóðskáld, rithöfundar eða listmálarar, allir þjóðkunnir og virtir á sínum sviðum. Hveragerði byggðist einkum vegna ókeypis jarðhita, byggingarmöguleika og náttúrunnar. Í dag eru ekki margir eftirlifandi sem muna að í „gamla“ daga var skortur á köldu vatni, nóg var af heitu vatni.

Í dag eru í Hveragerði um 3400 íbúar, sem fá alla þá þjónustu sem nútímasamfélag krefst. „Þorpið” hefur stækkað gríðarlega og nú sjást húsin varla fyrir trjám. Hamarinn nærri falinn bak við stór furu- og grenitré, og fallegar trjábreiður í hlíðum Reykjafjalls blasa við, tré sem Garðyrkjuskólinn á Reykjum á heiðurinn af. Margt annað hefur breyst á þessum tíma. Nýr þjóðvegur um Kambana í gegnum Hveragerði, fjárréttin rifin, Kaupfélagið lagt niður, Tívolíið rifið, Eden brunnin, kirkjan og Heilsuhæli Náttúrulækningafélagsins risin, en apinn vinsæli í blómaverslun Michelsens löngu horfinn. Margar voru helgarferðir Reykjavíkinga til að berja apann augum eða til að kaupa grænmeti, ís eða kaffi í Eden. Fyrir suma er hveralyktin minnistæðust, þó að í dag sé hún að mestu horfin sem betur fer. Á vefsíðu Hveragerðisbæjar er að finna fróðlega þróunarsögu Hveragerðis. Sagan er rakin stuttlega frá upphafi snemma á síðustu öld til þessa dags.

Fyrir nokkrum árum fór fram skoðanakönnun meðal íbúa um endursameiningu Hveragerðis og Ölfuss, en Hveragerði er eins og lítið frímerki inni í Ölfusi. Vilji var til sameiningar í Hveragerði, en ekki í Ölfusi þó litlu hafi munað. Á liðnum áratugum hefur hefðbundinn landbúnaður nánast horfið í Ölfusi. Aðeins ein jörð stendur undir því nafni í dag. Sameining mun eflaust eiga sér stað þótt síðar verði, og kannske kominn tími til að gera nýja íbúakönnun.

Nú er í vinnslu Aðalskipulag Hveragerðis með áherslu á græna atvinnustarfsemi, ferðamanna- og heilsuþjónustu. Samkvæmt núgildandi Aðalskipulagi Hveragerðis skera þjóðvegurinn og háspennulínur land Hveragerðis í tvennt. Á næsta skipulagstímabili mun byggðin þróast til suðurs. Núverandi þjóðvegur og raflínur, ásamt helgunarsvæði þeirra, standa í vegi fyrir eðlilegri byggðarþróun. Helgunarsvæði þjóðvegarins (2+2 og hjólastígs) og háspennuraflínanna mun skerða um 20% af nýtanlegu byggingarlandi bæjarfélagsins. Það sem verra er, skerðingin er á besta byggingasvæði Hveragerðis. Uppi eru hugmyndir um að grafa rafstrengina í jörðu, en það breytir litlu eða engu því helgunarsvæði verður áfram til staðar. Fyrir þróun Hveragerðis er gildandi aðalskipulag afleitt, reyndar það allra versta, fyrir þróun bæjarfélagsins og ótrúlegt að það hafi hlotið samþykki á sínum tíma. Nýja aðalskipulagið, sem framundan er, verður að laga þessi mistök. Land Hveragerðis þarf að nýta eins vel og unnt er og því þarf að færa bæði háspennulínur og þjóðveg að suðurmörkum bæjarfélagsins. Aðeins þannig verður byggðin samfelld. Skipulagsvaldið er í höndum bæjarfélagsins, og bæjarfulltrúum ber að nýta þetta vald. Þeirra er ábyrgðin.

Róbert Pétursson.

Nýjar fréttir