-0.5 C
Selfoss

Lestrarömmur í Hveragerði vekja mikla lukku

Vinsælast

Það var í haust sem Olga Clausen, fyrrverandi kennari á eftirlaunum, ákvað að taka aftur upp þráðinn í skólastarfi með nýju hlutverki. Hún hafði lesið í fjölmiðlum um hnignun í lestrarfærni nemenda og hringdi í kjölfarið í Grunnskólann í Hveragerði og bauðst til að aðstoða börnin við að lesa. Skólinn tók þessu með miklum þökkum og síðan þá hefur hún komið tvisvar í viku í skólann sem svokölluð lestraramma. Lestrarömmurnar eru nú fjórar talsins og eru þær allar gamlir starfsmenn grunnskólans sem komnir eru á eftirlaun, ýmist kennarar eða stuðningsfulltrúar.

Hugmyndin ekki ný af nálinni

Olga hafði upphaflega séð hugmyndina um lestarömmur í þætti Landans á RÚV í skóla úti á landi. Hún fann sig knúna til að taka þetta upp í Hveragerði og aðstoða og styðja þau börn sem eiga erfitt með lestur. „Mér finnst þetta ganga bara ljómandi vel og börnin eru ánægð,“ segir hún og bætir við að þau séu mjög jákvæð og biðji jafnvel um að fara út úr tíma til að fá að lesa hjá henni. Hún telur að lestrarömmurnar hafi mjög góð áhrif.

Lesfærni í algjörum forgangi

Olga leggur mikla áherslu á að börnin nái ekki aðeins að lesa heldur einnig að skilja það sem þau lesa. Hún segist bæði reyna að auka málskilning og orðaforða barnanna. „Ég læt þau ekki bara lesa. Ég segi þeim áður en þau byrja að lesa að ef að ég heyri að þau skilji ekki eitthvað orð þá fer ég í gegnum það með þeim. Ég er líka með orðskýringar.“ Hún segir það grafalvarlegt mál ef börn ljúka grunnskóla illa læs eða með slakan lesskilning.

Olga er mjög hrifin af þessu nýja hlutverki sínu. „Ég væri ekki búin að kenna svona mikið ef ég hefði ekki gaman af því,“ segir hún og hefur sterka trú á að hennar framlag létti undir hjá kennurunum. Hún bendir á að sum börn lesi aldrei heima, sem hún telur vera áhyggjuefni. „Námið byggist ekki bara á því að lesa í skólanum. Það er ekki hægt að láta hvert einasta barn lesa einhver ósköp í stórum bekk. Það vantar svolítið upp á það að lesa heima,“ segir hún.

Skemmtilegt og gefandi starf

Að lokum lýsir Olga því hve gefandi það sé að koma aftur í skólann sem sjálfboðaliði og taka þátt í að styrkja lestrarfærni barna. „Það er gaman að hitta fólk og finnast maður vera að gera eitthvað gagn,“ segir hún.

Nýjar fréttir