-1.4 C
Selfoss

Kosningarnar

Vinsælast

Kæru kjósendur. Það er ekkert mikilvægara en að nýta atkvæðisréttinn sem svo mikið var haft fyrir fyrr á árum af framsýnum mönnum að gefa okkur öllum. Það er líkast til betra að kjósa vitlaust en að kjósa ekki.

Það er staðreynd að það er gott fólk og vel hugsandi í öllum flokkum, en aðalatriðin eru það sem fólk sameinast um í hverjum þeirra. Landið okkar virðist vera í krísu efnahagslega, mest vegna stjórnleysis undanfarin sjö ár. Ríkissjóður er hriplekur og hælisleitendur fá betri kjör en þeir Íslendingar sem minnst hafa milli handanna. Hugum að umheiminum og hjálpum til þar sem þessi litla þjóð getur, en látum okkar eigið fólk ganga fyrir sem býr við bág kjör eða jafnvel á götunni. Taktu til heima hjá þér og hjálpaðu svo öðrum í neyð. Allir okkar innviðir virðast hrundir, ekki hvað síst heilbrigðis- og samgöngukerfið. Það þarf mikla uppstokkun til að koma öllu í lag og ekki síst hjá ríkisstofnunum sem eru orðnar að bákni sem stöðugt vex.

Ég hef fylgst með skoðanakönnunum, og það sem hræðir mig mest er þetta aukna fylgi Viðreisnar! Það er áhyggjuefni. ESB innganga og evra er ekki það sem við þurfum, enda var það krónan sem bjargaði okkur í hruninu. Mörgum hefur verið talin trú um að slík innganga myndi breyta vaxtastigi og verðtryggingu hér á landi og allir myndu hafa það betra. Þvílíkur blekkingarleikur.

Fyrir ca. 12 árum fékk ég sem sveitarstjórnarfulltrúi vestur á landi boð um kynningu á ESB og að koma til Brussel og kynna mér málin. Ég var ekkert spennt, en fór með tilfinningu, en kom heim með rök.

Í stuttu máli sagt, ef einhver er að tengja ESB aðild við vinstrimennsku, þá er það reginmisskilningur. Þetta er það kapítalískasta batterý sem fyrirfinnst, hreinn lobbýismi stórfyrirtækja með þingmenn í vinnu, enda byggt upp úr gamla þýska stál- og kolabandalaginu „Ef þú klórar mér, þá klóra ég þér“. Erfitt er að lýsa þessu apparati í styttra máli. Þessi hópur sem fór út var u.þ.b. 25 manns, flest Samfylkingarfólk úr Reykjavík og einn og einn af landsbyggðinni úr misjöfnum flokkum og vorum því kannski svolítið sér á báti sem andstæðingar ESB. En við hlustuðum, fengum góðar þýðingar á ensku og kynningar á áhrifum hinna ýmsu atvinnugreina. Sannleikurinn er sá, að fiskimiðin okkar færu til úthlutunar til Spánverja, Portúgala og fl. Orkan okkar færi til Evrópu með auknum kostnaði fyrir alla venjulega Íslendinga, þar sem ekki má mismuna milli þjóða. Hvað landbúnaðinn varðar, þá fengju landeigendur styrkina en þeir sem yrkja jörðina bara afrakstur sinnar eigin vinnu. Sjá má fyrir sér hvaða áhrif það hefði.

Erlendir auðjöfrar og uppkaup á jörðum eru orðin að raunveruleika. Landbúnaðurinn okkar á nógu erfitt nú þegar, ekki hvað síst sauðfjárbúin.

Það eru tvenns konar þjóðir í ESB. Þeir sem borga og þeir sem þiggja. Brexit varð til af því þeir tilheyrðu alltaf fyrri hópnum eins og við myndum gera, þar sem við eigum auðlindir.

Þarna starfa fjölmargir lobbýismar fyrir ýmis stórfyrirtæki og jafnvel mörg fyrirtæki í einu til að ná sínum hagsmunum í gegn.

Ég skil lönd eins og Pólland, Ungverjaland o.fl. að vera þarna, landamæratengd lönd, en við erum svo heppin að vera eyland langt í vestri sem þarf þetta ekki.

Kæri kjósandi. Mundu hrunið og alla sem misstu heimilin sín. Við eigum kost á besta „krísustjórnandanum sem kom skuldaleiðréttingunni í gegn“, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Maður sem beitir skynsemishyggju, hugsar í lausnum og hikar ekki við að leita bestu lausna við hverjum vanda. Hann hefur vaska sveit með sér í öllum kjördæmum, tilbúna í slaginn.

Hvað sem þú gerir á kjördag, kjósandi góður, þá aldrei kjósa Viðreisn og ekki skila auðu. Ég kýs Miðflokkinn, því ég veit hvers hann er megnugur, fái hann tækifæri til.

Settu X-ið þitt við M á kjördag og sameinumst um að bæta kjör venjulegs fólks og þeirra sem minna mega sín.

Guðrún Kr. Jóhannsdóttir,

Viðskiptafræðingur

Suðurkjördæmi

Nýjar fréttir