-4.1 C
Selfoss

Ný Ölfusárbrú afar aðkallandi á Suðurlandi

Vinsælast

Kæru Sunnlendingar.

Mér er bæði ljúft og skylt að þakka fyrir þann stuðning sem ég fékk á kjördæmisráðsfundi Sjálfstæðismanna nýverið þar sem ég var endurkjörin oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Það var töluverð endurnýjun á lista Sjálfstæðisflokksins og við frambjóðendur erum þakklát fyrir stuðninginn og þá hvatningu sem við höfum fengið á fyrstu vikum kosningabaráttunnar.

Góð sveitarfélög eru byggð upp af öflugu fólki sem lætur sig málin varða og er annt um nærsamfélagið. Mikil gróska er á Suðurlandi og hér eru mikil tækifæri. Vöxtur sveitarfélaga í kjördæminu hefur verið gríðarlegur á undanförnum árum og atvinnulífið hefur verið í mikilli sókn. Hér hefur verið afar gott að búa og starfa og ég vil áfram leggja mitt af mörkum til að styrkja innviði Suðurkjördæmis á alla vegu. Við erum, og eigum að vera, í fremstu röð hvort sem litið er til sjávarútvegs, landbúnaðar og matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu eða margs konar iðnaðar. Við viljum forðast einhæfni og fá fjölbreyttari störf í kjördæmið. Við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir fleiri stoðum í atvinnulífinu og verðmætari störfum. Það er okkur öllum til hagsbóta.

Íbúafjölgun kallar á öfluga og trausta innviði í samfélaginu okkar. Þar eru samgöngur stór þáttur í auknum lífsgæðum hér í kjördæminu. Þær verða að vera öruggar og góðar, hvar sem er í kjördæminu, annars dafnar hvorki mann- né atvinnulíf.

Í mínum huga er ný Ölfusárbrú afar aðkallandi fyrir Suðurland. Um er að ræða lyftistöng fyrir kjördæmið og sameiginlegt hagsmunamál allra sveitarfélaga á svæðinu. Fjármögnunin er nánast fullkláruð og ekkert bendir til annars en að hún verði að veruleika. Ölfusárbrúin er ekki mannvirki í tómarúmi heldur hluti af umfangsmikilli áætlun um að stórbæta vegakerfið á Suðurlandi. Innan þeirrar áætlunar er m.a. tvöföldun Hellisheiðar og tilfærsla þjóðvegarins niður Kambana. Bættar samgöngur munu hafa mikil áhrif á lífsgæði og öryggi þeirra sem fara um vegina og ferlið hefur verið unnið í víðtæku samráði. Ég mun áfram beita mér fyrir því að brúin verði kláruð sem allra fyrst.

Fyrir stjórnmálafólk og aðra sem starfa í almannaþágu er fátt dýrmætara en að fá tækifæri til að hitta fólk og ræða málin. Ég verð á mikilli ferð um kjördæmið næstu vikurnar í kosningabaráttu og hlakka til að heyra ykkar sýn og sjónarmið á því sem skiptir máli í kjördæminu okkar. Það samtal mun halda áfram að þróast og dýpka, enda hvergi nærri lokið.

Við Sjálfstæðismenn horfum fram á veginn full af bjartsýni og eftirvæntingu, einbeitt í því að stuðla að jákvæðum breytingum. Sjálfstæðisflokkurinn stendur einn sem skýr valkostur í komandi þingkosningum fyrir þá sem vilja byggja íslenskt samfélag á einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi með hag allra samfélagshópa í huga. Stefna okkar byggir á traustum grunni mannréttinda, jafnræðis, frelsis og ábyrgðar einstaklingsins.

Guðrún Hafsteinsdóttir,

Dómsmálaráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Nýjar fréttir