-3.1 C
Selfoss

Norskt fjármála- og tæknifyrirtæki kaupir meirihluta í Bókað frá KPMG 

Vinsælast

Samkomulag hefur tekist um kaup norska fjármála- og tæknifyrirtækisins ECIT AS á meirihluta í bókhalds- og launaþjónustu KPMG sem rekin hefur verið undir heitinu Bókað. Gert er ráð fyrir endanlegum frágangi viðskiptanna í ársbyrjun 2025 en KPMG verður áfram hluthafi.

Fjárfest í hugviti, engar breytingar í mannahaldi

Starfsfólk Bókað telur um 80 manns og sinnir það þjónustu við um 2.000 fyrirtæki og stofnanir um land allt. Engar breytingar eru fyrirhugaðar í mannahaldi eða starfsstöðvum Bókað né heldur í þjónustuþáttum gagnvart viðskiptavinum. Framkvæmdastjóri félagsins verður Birna Mjöll Rannversdóttir sem hefur verið sviðsstjóri bókhaldssviðs KPMG til fjölda ára og verið meðeigandi hjá KPMG frá árinu 2015. Með kaupunum verður Bókað hluti af öflugu neti á sínu sérsviði en ECIT veitir bókhalds- og launaþjónustu á öllum Norðurlöndunum auk nokkurra annarra landa. ECIT hefur starfað á Íslandi frá árinu 2023 og hefur áður fjárfest í fjármálaþjónustu og bókhaldsfyrirtækinu Virtus auk smærri eininga á sviði bókhalds- og launaþjónustu. Starfsfólk ECIT á Íslandi mun samtals telja um 110 eftir að kaupin ganga í gegn.

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri KPMG:
„Það er mikilvægt fyrir okkur að geta boðið okkar viðskiptavinum bestu lausnir í bókhalds- og launaþjónustu sem völ er á og þar stendur ECIT AS vel að vígi. Við viljum skerpa á þjónustuframboði KPMG í samræmi við áherslur félagsins á alþjóðavettvangi á sviði endurskoðunar, reikningsskila, ráðgjafar, lögfræði- og skattaþjónustu. Við stefnum að því að sækja enn frekar fram á okkar sérsviði og það er mikilvægt að eiga í samstarfi við öflugt félag á sviði launavinnslu og bókhaldsþjónustu til að geta tryggt viðskiptavinum okkar áfram þjónustu á breiðum grunni.“

Peter Lauring, stofnandi og forstjóri ECIT AS:
„Þessi kaup á Bókað styrkja enn frekar stöðu og þjónustu ECIT í bókhalds- og launaþjónustu á Íslandi. Það er með mikilli ánægju sem við bjóðum viðskiptavini og starfsfólk Bókað velkomin til ECIT.“

ECIT AS er með yfir 2.500 starfsmenn á yfir hundrað skrifstofum í tíu löndum. Auk bókhalds- og launavinnslu veitir félagið víðtæka þjónustu á sviði upplýsingatækni og viðskiptalausna. Árstekjur ECIT  samstæðunnar eru um 47 milljarðar króna. Hjá ECIT Virtus starfa ríflega 30 manns á Íslandi sem sinna víðtækri þjónustu við ríflega 1.000 viðskiptavini.

Fyrir hönd ECIT AS annaðist Halldór Þorkelsson hjá Arcur ehf. ráðgjöf um viðskiptin og milligöngu vegna þeirra.

Nýjar fréttir