-8.3 C
Selfoss

Kosningarnar 30. nóvember ráða framvindunni

Vinsælast

Komandi alþingiskosningar ráða miklu um framvindu mála hér á landi á komandi tíð. Þær gefa færi á að tryggja hagsæld og lækkun vaxta, hefja nýja sókn til að tryggja landsmönnum ódýra raforku og tryggja frelsi einstaklinga og fullveldi þjóðarinnar og yfirráð yfir verðmætum auðlindum hennar. Kosningarnar eru þess vegna ögurstund fyrir þjóðina.

Efnahagsmálin og lækkun vaxta kalla á styrk tök á ríkisfjármálum með hófsemi að leiðarljósi. Hófsemi í útgjöldum, hófsemi í skattheimtu og niðurgreiðslu skulda.

Leysa þarf orkubúskapinn úr viðjum rammans, úrelts fyrirkomulags sem notað hefur verið til að tefja nauðsynlegar framkvæmdir. Áður fyrir voru sett lög um einstakar virkjanir og kannski þarf að taka þá stefnu upp að nýju. Framleiðsla og dreifing á raforku þarf að samrýmast ýtrustu kröfum til að tryggja landsmönnum orku á hagstæðu verði og greiða fyrir orkuskiptum. Áherslu ber að leggja á að ákvarðanir í þessum efnum séu teknar í góðri sátt við heimamenn.

Fullveldi þjóðarinnar er markleysa nema landamærin séu örugg. Við höfum fylgt stefnu opinna landamæra, öfgastefnu sem hafnað hefur verið af nágrannaþjóðum og þær lýsa sem mistökum. Kjósendur eiga völ um flokka sem aðhyllast opin landamæri með tilheyrandi fjáraustri úr ríkissjóði, þar á meðal Framsóknarflokkinn eftir að formaður hans tók af skarið í þeim efnum í sjónvarpi nýverið, og hins vegar Miðflokkinn sem lengst allra flokka hefur talað fyrir öruggum landamærum í þágu íslenskra hagsmuna.

Samgöngur eru meðal helstu hagsmunamála íbúa Suðurlands þar sem nú gætir víða mikillar grósku og uppbyggingar. Meðal aðkallandi verkefna á því sviði eru Ölfusárbrú, tvöföldun vegar yfir Hellisheiði, aðgerðir til að tryggja aukið öryggi í Kömbunum og bæta Þrengslaveg svo hann verði fær á vetrum þegar Kambar lokast. Þá er brýnt að ljúka nauðsynlegum rannsóknum á möguleikum á að leggja göng milli lands og Eyja. Miðflokkurinn mun standa fast að því að hrinda þessum aðkallandi málum í framkvæmd fái hann til þess nægilegan þingstyrk.

Ólafur Ísleifsson,

skipar 3. sæti á framboðslista Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

Nýjar fréttir