-3.2 C
Selfoss

Að bregðast komandi kynslóðum 

Vinsælast

Kennaraverkfallið í Fjölbrautaskóla Suðurlands og öðrum skólum landsins er skýrt dæmi um hvernig áhugaleysi stjórnvalda gagnvart menntakerfinu bitnar á framtíð nemenda og réttindum komandi kynslóða. Að láta mál þróast í þá átt að kennarar neyðist til að grípa til verkfalls til að fá viðurkennt verðmæti starfa sinna er óásættanlegt og bendir til mikils tómlætis af hálfu ríkisins. Þetta tómlæti hefur nú alvarleg áhrif á unga fólkið okkar, sem er framtíð samfélagsins.

Þessi verkfallsaðgerð bitnar hvað harðast á þeim nemendum sem standa höllum fæti, bæði námslega og félagslega. Það eru þau ungmenni sem þurfa hvað mest á stöðugleika og stuðningi að halda til að geta þroskast og dafnað. Verkfallið sviptir þau því öryggi sem skólinn veitir og skilur þau eftir í óvissu, þar sem mörg þeirra eiga erfitt með að halda áfram í námi. Afleiðingin verður óhjákvæmilega aukið brottfall og sár skekkja í lífi þeirra.

Eðlileg kjör og vinnuaðstæður kennara snúast ekki einungis um kjarabætur, heldur eru þau grunnforsenda fyrir gæðum menntunar og möguleikum allra nemenda á að ná árangri. Með áhugaleysi sínu á grunnþörfum menntakerfisins er ríkið að bregðast ungu fólki og tefla framtíð þess í hættu með tilheyrandi langtímaáhrifum á samfélagið.

Það er löngu tímabært að stjórnvöld taki ábyrgð á því hlutverki sínu að tryggja sterkt menntakerfi og axla þá ábyrgð að menntun og jöfn tækifæri séu tryggð fyrir alla.

Gunnar Karl Ólafsson,

forseti Sigríðar, Ungs jafnaðarfólks á Suðurlandi

og frambjóðandi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Nýjar fréttir