-1.4 C
Selfoss

Tvö teymi á Suðurlandi valin í Startup Tourism hraðalinn

Vinsælast

Ferðaþjónusta er ein mikilvægasta atvinnugreinin á Íslandi og ljóst er að áhugi fyrir því að gera enn betur með nýsköpun að leiðarljósi er mikill. KLAK – Icelandic Startups stendur um þessar mundir fyrir viðskiptahraðli fyrir sprotafyrirtæki í ferðaþjónustu og alls bárust rúmlega 30 umsóknir í hraðalinn frá öllu landinu.

Teymi frá KLAK Icelandic Startups fór í hringferð um landið í upphafi mánaðar til að kynna Startup Tourism hraðalinn og kom þá greinilega í ljós gríðarlegur áhugi um allt land. Áhuginn endurspeglaðist í umsóknum í Startup Tourism en fjöldi barst frá öllum landshlutum og voru umsóknir frá teymum af landsbyggðinni helmingur af heildarfjölda.

Þau tíu teymi sem voru valin í hraðalinn skiptast einnig þannig að helmingur er frá höfuðborgarsvæðinu og helmingur frá öðrum landshlutum, þ.e. Reykjanesi, Suðurlandi, Norð- Austurlandi og Vesturlandi. Þetta er metfjöldi landsbyggðarteyma í viðskiptahraðli hjá KLAK – Icelandic Startups.

Sprotafyrirtækin tíu sem taka þátt í hraðlinum vinna að nýsköpun í ferðaþjónustu á fjölbreyttum sviðum. Þar má til dæmis nefna fyrirtæki sem gefur erlendum ferðamönnum færi á að leigja sér góðan útivistarfatnað, atvinnumiðstöð fyrir ferðaþjónustu, sem tengir fyrirtæki í ferðaþjónustu við hæft starfsfólk á Norðurlöndunum og raddstýrt leiðsöguapp sem, með hjálp spunagreindar og talgervilstækni, veitir ferðalöngum á einka- og bílaleigubílum félagsskap og leiðsögn.

„Við erum ótrúlega ánægð með viðtökurnar við hraðlinum og fjölbreytni umsókna. Við óskum teymunum tíu til hamingju og hlökkum til að vinna náið með þeim næstu vikur,” segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Klak – Icelandic Startups.

Teymin sem urðu fyrir valinu á Suðurlandi eru NordTemp og Ævintýraeignir.

NordTemp er Norræn atvinnumiðstöð fyrir ferðaþjónustu, sem tengir fyrirtæki í ferðaþjónustu við hæft starfsfólk. Vettvangurinn straumlínulagar ráðningarferli fyrir störf þar sem vinnutími og vaktir eru sveigjanlegar og tryggir að fyrirtæki geti fljótt fundið hæft starfsfólk þegar þau þurfa mest á því að halda.

Hafþór Helgi Sigmarsson og Gerard Siles. Ljósmynd: Aðsend.

Ævintýraeignir áforma að gera nýjan áfangastað á Suðurlandi, nánar tiltekið Reynisfjall við Vík í Mýrdal. Ætlunin er að bæta aðgengi og öryggi með merkingum og stikum fyrir hjóla- og göngufólk. Einnig er áætlað að bæta aðgengi með rútuferðum upp á fjall. (líka fyrir hreyfihamlaða), bæta öryggi með því að hafa áningarstað uppi á fjalli með salerni og veitingum (gamla Lóranstöðin) og bæta afþreyingu.

Þráinn Sigurðsson og Samúel Alexandersson. Ljósmynd: Aðsend.

Nýjar fréttir