-1.4 C
Selfoss

Spjallað um list í Listasafni Árnesinga

Vinsælast

Laugardaginn 2. nóvember verður spjallað um sýningarnar Hljóðrof og Millibil í Listasafni Árnesinga.

Klukkan 14:00 mun Jóhannes Dagsson spjalla við Sigurð Guðjónsson um sýninguna Hljóðróf.

Hljóðróf (2024) er heild sem er í sífelldri umbreytingu, kvik af hreyfingu en þó stöðug og sjálfri sér samkvæm. Verkið virkjar rými sýningarsalarins, gengur í samband við það og úr verður skynræn heild. Með því að ganga um rýmið og búa sér þannig til ný og ný sjónarhorn verða til, ekki aðeins augnablik, heldur líðandi sem kallar fram hugrenningar um tíma og takt. Þessi óræði hlutur sem liggur fyrir fótum okkar er bæði aðgengilegur og blekkjandi, augljós og falinn. Í verkinu er varpað fram spurningum um yfirborð og mynd, um hlut, efni, hreyfingu og skynjun. Þetta er gert með því að bjóða áhorfandanum inn í fagurfræðilega upplifun sem virkjar ólík skilningarvit og sjónarhorn.

Sigurður Guðjónsson hefur í mörgum verka sinna leitt áhorfandann inn í heima sem eru ósýnilegir nema í gegnum sjónarhorn tiltekinnar tækni. Hér má nefna verk eins og Perpetual Motion (2022) þar sem áhorfandinn ferðast í gegnum heim málmagna seguls og ljóss sem er aðgengilegur í gegnum aðdráttarlinsu myndavélarinnar eða verk eins og Fluorescent (2021) þar sem efnahvörf eða atburðarás flúorperu eru viðfang verksins en verkið er um leið hugleiðing um ljós og hluti, efni og yfirborð. Þessir hliðarheimar (eða undirheimar) taka á sig merkingu og innihald í gegnum upplifun okkar af verkunum og um leið draga þau fram spurningar um eðli þess að skynja, eðli þess að horfa. Hljóðróf er nýr heimur af þessu tagi. Hljóð og ljós myndarinnar ganga hér í samband við efni hlutheimsins og efniskennd verksins er bæði raunveruleg og byggir á framsetningu eða jafnvel blekkingu.

Sigurður Guðjónsson var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022. Hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin 2018 fyrir sýninguna Innljós á vegum Listasafns ASÍ.

Klukkan 15:00 mun Einar Lövdahl spjalla við Þórdísi Jóhannesdóttur um sýninguna Millibil.

Þrátt fyrir að Þórdís Jóhannesdóttir hafi lengi notað ljósmyndina sem sinn miðil telst hún seint til hefðbundinna ljósmyndara. Ljósmyndir eru grunnurinn sem hún svo brýtur upp á, teygir og togar bæði í yfirfærðri og bókstaflegri merkingu orðanna. Þórdís sækir myndefni sitt í hversdagsleikann; efnistökin eru form og litafletir sem hún fangar á ferðum sínum, ýmist í myndlist annarra, arkitektúr eða úti í náttúrunni. Myndirnar notar hún svo sem grunn til frekari útfærslu þrívíðra verka. Undirlag myndanna eru krossviður eða álplötur sem hafa verið brotnar þannig að þær myndi form sem kallast á við eða endurspegla efnistökin sem birtast í ljósmyndinni. Úr verða fletir sem taka á sig ljós og skugga sýningarrýmisins á mismunandi hátt; verk sem teygja sig útí rýmið og leika á mörkum þess tví- og þrívíða. Þórdís Jóhannesdóttir (f. 1979) nam myndlist við Listaháskóla Íslands; hún lauk B.A. námi árið 2007 og M.A.námi árið 2015. Þórdís hefur sýnt víða hérlendis, bæði sín verk og í samstarfi við Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur undir heitinu Hugsteypan. Af nýlegum sýningum mætti nefna Far í Hafnarborg og Afrit í Gerðarsafni, sem báðar voru hluti af Ljósmyndahátið Íslands 2020.

Þórdís Jóhannesdóttir.
Ljósmynd: Aðsend.

Nýjar fréttir