8.5 C
Selfoss

Listin að lifa listilega vel gerð

Vinsælast

Leikfélag Selfoss frumsýndi um helgina leikritið Listin að lifa eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur. Leikstjóri er Jónheiður Ísleifsdóttir. Fullt hús var á frumsýningu og gestir ánægðir með sýninguna.

Þetta er fyrsta sýning félagsins síðan 2021. Framkvæmdir hafa verið á leikhúsinu sem hafa valdið því að starfsemi hefur verið skert síðustu ár.

Blaðamaður lagði leið sína á frumsýningu ekki vitandi við hverju ætti að búast. Leikhúsið hefur mikinn sjarma og leið manni vel að koma þangað inn. Vel var tekið á móti gestum og góður andi yfir húsinu. Strax í byrjun sýningar var augljóst að verkið væri fyndið og hjartnæmt. Sýningin fjallar um vinina Dúu, Duddu og Didda og er þeim fylgt gegnum lífið nánast frá vöggu til grafar með öllu því sem líf þeirra hefur upp á að bjóða. Fimm leikarar eru í sýningunni og spanna þeir breitt aldursbil, koma úr ýmsum áttum og eru sumir að stíga sín fyrstu skref meðan aðrir hafa mikla reynslu með leikfélaginu.

Leikurinn var mjög góður og túlkun leikara á persónunum mjög sannfærandi. Tvær leikkonur fóru með hlutverk Duddu og tvær með Dúu. Guðrún Ósk Guðjónsdóttir og Birgitta Brynjarsdóttir fóru með hlutverk Duddu og Sigríður Hafsteinsdóttir og Jórunn Fríða Bjarnadóttir með hlutverk Dúu. Það var mjög skemmtilegt að sjá hversu vel leikkonunum tókst að túlka sinn karakter á sama hátt. Dudda er mjög lítil í sér og á lítið af vinum. Dúa og Diddi eru einu vinir hennar. Hún hefur ekki gaman af því að fara út á meðal fólks og vill helst vera heima að lesa bækur. Dudda er allt öðruvísi. Hún sækist í samkomur með öðru fólki og finnst gaman að kynnast nýjum strákum og er heldur kærulaus. Ársæll Hjálmarsson fer svo með hlutverk Didda og gerir það með glæsibrag.

Ástardeilur eru stór hluti af sýningunni þar sem ástarmál Dúu og Diddu flækja vinasamband þeirra. Sýningin endurspeglar þær áskoranir sem maðurinn getur þurft að takast á við í gegnum lífið, hvort sem það er að kúka á sig sem smábarn eða að glíma við alzheimer á elliárum.

Öll umgjörð sýningarinnar var til fyrirmyndar. Leikmyndin var mjög látlaus en virkaði mjög vel. Það þarf ekki flókna leikmynd til þess að setja upp flotta sýningu. Ljósin voru flott og ljósabreytingar komu á háréttum tíma. Tónlistin sem var notuð var vel valin og gerði mjög mikið fyrir sýninguna.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.
Kjartan Björnsson fór með tölu og færði leikstjóra blómvönd eftir sýninguna.
Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Ég hvet alla til þess að gera sér leið í Litla leikhúsið við Sigtún á Selfossi og eiga frábæra kvöldstund með Didda, Duddu og Dúu.

EHJ

Nýjar fréttir